Nýliðarnir unnu aftur - stórleikur Alston

Robbi Ryan átti stórleik í liði Grindavíkur í kvöld.
Robbi Ryan átti stórleik í liði Grindavíkur í kvöld. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Nýliðar Njarðvíkur unnu annan leik sinn í röð í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, þegar liðið lagði Fjölni að velli, 71:61, í Njarðtaksgryfjunni í Njarðvík í kvöld. Nýliðar Grindavíkur unnu þá öruggan útisigur gegn Breiðabliki.

Í leik Njarðvíkur og Fjölnis var mikið jafnræði með liðunum til að byrja með þar sem Njarðvík leiddi með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta, 15:14.

Fjölniskonur tóku leikinn yfir í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik, 29:34.

Í þriðja leikhluta náði Njarðvík svo að snúa taflinu við og leiddi með fimm stigum, 49:44, að honum loknum.

Í fjórða og síðasta leikhluta náðu heimakonur svo að fylgja sterkum þriðja leikhluta eftir og unnu að lokum góðan tíu stiga sigur.

Njarðvík vann afar óvæntan 66:58 útisigur gegn meistaraefnunum í Haukum í fyrstu umferð og er það morgunljóst að nýliðarnir ætla ekkert að gefa eftir í deildinni í vetur.

Hinir nýliðarnir í deildinni, nágrannarnir úr Grindavík, unnu sinn fyrsta sigur í vetur þegar liðið heimsótti Breiðablik í Kópavoginn.

Grindvíkingar gáfu strax tóninn og leiddu með 19 stigum, 49:30, í hálfleik.

Eftirleikurinn reyndist auðveldur og fór Grindavík að lokum með 14 stiga sigur, 83:69, af hólmi.

Robbi Ryan fór á kostum í liði Grindavíkur og skoraði 28 stig auk þess að taka sjö fráköst og gefa fimm stoðsendingar.

Íslandsmeistarar Vals unnu þá auðveldan útisigur gegn Skallagrími í Borgarnesi í kvöld.

Þar höfðu Valskonur gífurlega yfirburði allan tímann og unnu að lokum 22 stiga sigur, 92:70.

Ameryst Alston átti ótrúlegan leik fyrir Val þar sem hún náði tvöfaldri tvennu er hún skoraði 36 stig og tók 11 fráköst, auk þess sem hún gaf sex stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert