Nýliðarnir unnu aftur - stórleikur Alston

Robbi Ryan átti stórleik í liði Grindavíkur í kvöld.
Robbi Ryan átti stórleik í liði Grindavíkur í kvöld. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Nýliðar Njarðvíkur unnu annan leik sinn í röð í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, þegar liðið lagði Fjölni að velli, 71:61, í Njarðtaksgryfjunni í Njarðvík í kvöld. Nýliðar Grindavíkur unnu þá öruggan útisigur gegn Breiðabliki.

Í leik Njarðvíkur og Fjölnis var mikið jafnræði með liðunum til að byrja með þar sem Njarðvík leiddi með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta, 15:14.

Fjölniskonur tóku leikinn yfir í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik, 29:34.

Í þriðja leikhluta náði Njarðvík svo að snúa taflinu við og leiddi með fimm stigum, 49:44, að honum loknum.

Í fjórða og síðasta leikhluta náðu heimakonur svo að fylgja sterkum þriðja leikhluta eftir og unnu að lokum góðan tíu stiga sigur.

Njarðvík vann afar óvæntan 66:58 útisigur gegn meistaraefnunum í Haukum í fyrstu umferð og er það morgunljóst að nýliðarnir ætla ekkert að gefa eftir í deildinni í vetur.

Hinir nýliðarnir í deildinni, nágrannarnir úr Grindavík, unnu sinn fyrsta sigur í vetur þegar liðið heimsótti Breiðablik í Kópavoginn.

Grindvíkingar gáfu strax tóninn og leiddu með 19 stigum, 49:30, í hálfleik.

Eftirleikurinn reyndist auðveldur og fór Grindavík að lokum með 14 stiga sigur, 83:69, af hólmi.

Robbi Ryan fór á kostum í liði Grindavíkur og skoraði 28 stig auk þess að taka sjö fráköst og gefa fimm stoðsendingar.

Íslandsmeistarar Vals unnu þá auðveldan útisigur gegn Skallagrími í Borgarnesi í kvöld.

Þar höfðu Valskonur gífurlega yfirburði allan tímann og unnu að lokum 22 stiga sigur, 92:70.

Ameryst Alston átti ótrúlegan leik fyrir Val þar sem hún náði tvöfaldri tvennu er hún skoraði 36 stig og tók 11 fráköst, auk þess sem hún gaf sex stoðsendingar.

mbl.is