„Hef engar áhyggjur af þessum leik“

Bjarni Magnússon þjálfari Hauka.
Bjarni Magnússon þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar töpuðu 41:84 fyrir franska liðinu Villeneuve d'Ascq í Evrópubikar kvenna í körfuknattleik í kvöld. Bjarni Magnússon var þrátt fyrir tapið stoltur af liði sínu enda franska liðið gríðarlega sterkt. „Ég er fyrst og fremst stoltur af því að vera á þessum stað með þetta lið.“

Bjarni viðurkenndi að franska liðið væri gífurlega sterkt og var ánægður með hvernig lið sitt gafst ekki upp og hélt áfram að berjast allt til enda. „Við hefðum klárlega getað gert betur hér og þar en þetta er fyrsti Evrópuleikur í riðlakeppni hjá nánast öllum í liðinu og þetta er mikil reynsla. Maður sá það í byrjun og eiginlega í leiknum öllum að við héldum okkur svolítið til baka, þorðum kannski ekki alveg að framkvæma það sem við ætluðum að reyna að gera. Við vissum að þetta yrði alltaf erfiður leikur gegn frábæru liði, en ég er líklega stoltastur af því hvernig við enduðum leikinn.“

„Það var margt jákvætt sem við gerðum í dag og ég hef engar áhyggjur af þessum leik. Þetta er bara fyrsti leikur og það var margt jákvætt en líka margt sem við getum gert betur. Nú er bara fyrsti leikur búinn og mesta stressið vonandi farið. Við fljúgum bara til Frakklands í næstu viku og tökumst á við annað lið.“

Næsti leikur í Evópubikarnum er strax í næstu viku. „Það er nóg að gera! Ég vil bara hrósa fólkinu í kringum klúbbinn fyrir að gefa leikmönnum tækifæri á að taka þátt á þessu sviði. Við vitum alveg að við erum litla liðið í þessum riðli og það verður erfitt að spila þessa leiki. Þetta er bara gífurleg reynsla fyrir þessa leikmenn að sjá þessa atvinnumenn sem þær eru að spila á móti, hvernig þær hreyfa sig og hvað þær eru að gera. Lærdómurinn verður vonandi mikill.“

Umgjörðin í Ólafshúsi var algjörlega til fyrirmyndar í kvöld. Bjarni tók undir það en sagðist hafa viljað sjá aðeins fleiri í stúkunni. „Þetta er geggjað. Þetta er bara geggjað hús. Kannski er ég of kröfuharður en ég vil þakka öllum sem komu en ég var að vona að við myndum fá enn fleiri í húsið. Það kemur bara næst!“

Haukar 41:84 Villeneuve opna loka
99. mín. skorar
mbl.is