Skoraði glæsilega flautukörfu

Brynjar skorar af löngu færi gegn Tindastóli í gærkvöldi.
Brynjar skorar af löngu færi gegn Tindastóli í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Leikur KR og Tindastóls í Subway-deildinni í körfuknattleik var viðburðaríkur fyrir Brynjar Þór Björnsson. 

Liðin léku í DHL-höllinni í Frostaskjóli í gærkvöld og hafði Tindastóll betur eftir framlengdan spennuleik 83:82 eins og farið var yfir á mbl.is í gær. 

Gamli refurinn Brynjar Þór Björnsson skoraði sérlega glæsilega körfu fyrir KR um það bil þegar leiktíminn var að renna út í fyrri hálfleik, svokallaða flautukörfu. Brynjar brunaði inn á vallarhelming Tindastóls og fór í þriggja stiga skot þegar hann var rétt kominn fram yfir miðju. Skotið rataði rétta leið eins og svo mörg þriggja stiga skotin á ferli Brynjars. 

Árni Sæberg ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is er sjaldnast langt undan þegar hlutirnir gerast og náði meðfylgjandi mynd af flautukörfu Brynjars. 

Brynjar náði ekki að ljúka leiknum með KR því undir lokin fékk hann sína aðra tæknivillu og var því sendur í bað.

mbl.is