Ekkert virðist standa í vegi Brooklyn Nets

James Harden.
James Harden. AFP

Að venju var nóg um leikmannaskipti í NBA-deildinni í sumar, en í ár var sumarið styttra fyrir leikmenn eftir sigur Milwaukee Bucks í júlímánuði, seinna en venjulega. Meistaraliðið er af sérfræðingum oftast talið líklegt til að verða með í baráttunni um titilinn á nýju leikári, sérstaklega með lítt breyttan leikmannahóp. Það á þó ekki við Milwaukee í þetta sinn.

Eftir að hafa litið á spár fréttafólks og framkvæmdastjóra liðanna, er næstum enginn sem heldur að Milwaukee muni verja titilinn. Bucks vann víst titilinn af heppni í sumar ef marka má mat þessa fólks. Meistararnir eru eins og Gollum í Hringadróttinssögu – með hringinn, en örlögin ætla honum annan eiganda. Milwaukee er víst eins og tuskudúkka á sorphaug.

Sérfræðingarnir eru að því er virðist blindaðir af skærum bjarma stjörnuleikmanna Brooklyn Nets og Los Angeles Lakers.

Nets víst alla leið

Allt gengur út á Brooklyn Nets austan megin að sögn sérfræðinga (yfir 70% af framkvæmdastjórum liðanna spá Nets meistaratitlinum samkvæmt árlegri skoðanakönnun NBA-deildarinnar), enda liðið með tvær stórstjörnur sem erfitt er að stöðva. Kevin Durant og James Harden munu bera þetta lið á sínum herðum í gegnum deildakeppnina.

Sá síðarnefndi virðist hafa tekið við leiðtogastöðunni eftir að Kyrie Irving ákvað enn einu sinni að hann væri mikilvægari en liðið sem hann leikur með. Hann er enn óbólusettur og virðist ekki tilbúinn að skipta skoðun á því. Af þeim orsökum mun hann ekki geta leikið í heimaleikjum liðsins og forystumenn Nets ætla ekki að leyfa honum að æfa með liðinu og óvíst er hvort hann leikur nokkurn leik án þess að vera bólusettur. 

Russell Westbrook er orðinn leikmaður Los Angeles Lakers.
Russell Westbrook er orðinn leikmaður Los Angeles Lakers. AFP

Þetta er samt sterkur og reyndur leikmannahópur. Forráðamenn Nets náðu í reynda leikmenn eins og Blake Griffin, Paul Milsap, LaMarcus Aldridge og Patty Mills – allt leikmenn sem vita hvað til þarf til að ná árangri í úrslitakeppninni. Það ætti að koma liðinu til góða í lokaúrslitunum ef allt gengur upp.

„Það eru vissulega miklar væntingar hjá okkur, en við erum langt frá því að vera heilsteypt lið eftir aðeins fimmtán æfingar saman. Það eru enn spurningar um hversu vel við getum byrjað, en mér líkar andrúmsloftið hjá leikmannahópnum,“ sagði Steve Nash þjálfari eftir síðasta æfingaleik liðsins rétt fyrir helgi.

Grein Gunnars í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert