Brooklyn og Lakers byrja bæði á tapi

Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo í baráttunni í leik Brooklyn …
Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo í baráttunni í leik Brooklyn og Milwaukee í nótt. AFP

NBA-deildin í körfuknattleik hófst að nýju í nótt með tveimur leikjum. Tvö af þeim liðum sem eru talin sigurstranglegust í vetur, Brooklyn Nets og LA Lakers, voru í eldlínunni og töpuðu bæði.

Opnunarleikur deildarinnar var á milli ríkjandi meistara Milwaukee Bucks og Brooklyn þar sem Milwaukee hafði að lokum góðan 127:104 sigur.

Stjörnur liðanna, Giannis Antetokonmpou hjá Milwaukee og Kevin Durant hjá Brooklyn, áttu báðir stórleik eins og þeirra er von og vísa.

Báðir skoruðu þeir 32 stig og náðu tvöfaldri tvennu; Giannis tók 14 fráköst og Durant 11.

LA Lakers þurfti svo að sætta sig við 114:121 tap gegn Golden State Warriors og það þrátt fyrir að bæði LeBron James og  Anthony Davis hafi átt stórleiki í liði Lakers.

Báðir náðu þeir tvöfaldri tvennu þar sem LeBron skoraði 34 stig og tók 11 fráköst og Davis skoraði 33 stig og tók einnig 11 fráköst.

Steph Curry átti frábæran leik í liði Golden State og náði þrefaldri tvennu þegar hann skoraði 21 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert