LeBron og félagar án sigurs – Durant fór á kostum

Anthony Davis í baráttunni í Los Angeles í nótt.
Anthony Davis í baráttunni í Los Angeles í nótt. AFP

Chris Paul skoraði 23 stig fyrir Phoenix Suns þegar liðið vann sannfærandi 115:105-sigur gegn Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik í Los Angeles í nótt. 

LeBron var stigahæstur í liði Lakers með 25 stig en Anthony Davis átti einnig mjög góðan leik og skoraði 22 stig ásamt því að taka fjórtán fráköst.

Lakers bíður ennþá eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu en liðið er í tólfta sæti vesturdeildarinnar án sigurs eftir fyrstu tvo leiki sína en Phoenix er í áttunda sætinu með einn sigur og eitt tap.

Þá unnu Brooklyn Nets dramatískan sigur gegn Philadelphia 76ers í Philadelphiu þar sem Kevin Durant fór á kostum en hann skoraði 29 stig, tók fimmtán fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Þetta var fyrsti sigur Brooklyn á tímabilinu en liðið er í níunda sæti austudeildarinnar.

Úrslit næturinnar í NBA:

Washington Wizards 135:134 Indiana Pacers
Orlando Magic 96:121 New York Knicks
Cleveland Cavaliers 112:123 Charlotte Hornets
Boston Celtics 83:115 Toronto Raptors
Philadelphia 76ers 109:114 Brooklyn Nets
Sacramento Kings 101:110 Utah Jazz
Los Angeles Lakers 105:115 Phoenix Suns
Denver Nuggets 102:96 San Antonio Spurs
Houston Rockets 124:91 Oklahoma City Thunder
Chicago Bulls 128:112 New Orleans Pelicans 

Kevin Durant fór á kostum.
Kevin Durant fór á kostum. AFP
mbl.is