Keflavík upp að hlið Njarðvíkur

Daniela Wallen Morillo átti stórleik í kvöld.
Daniela Wallen Morillo átti stórleik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík átti ekki í nokkrum vandræðum með botnlið Skallagríms þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Borgarnesi í kvöld.

Nokkuð jafnræði var með liðunum til að byrja með en Keflavík tók leikinn yfir í öðrum leikhluta og leit aldrei til baka.

Staðan í hálfleik var 49:38 og juku gestirnir úr Keflavík einungis forskotið í þeim síðari.

Vann Keflavík að lokum öruggan 94:63 sigur.

Daniela Wallen Morillo átti stórleik fyrir Keflavík og náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hún 22 stig, tók 16 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Leonie Edringer var stigahæst heimakvenna í Skallagrími með 17 stig.

Eftir sigurinn er Keflavík áfram í öðru sæti deildarinnar en er nú með 12 stig, jafnmörg og nágrannar sínir í Njarðvík, þegar bæði lið hafa leikið átta leiki.

Skallagrímur er án stiga á botni deildarinnar og hefur einnig leikið átta leiki.

mbl.is