Væri til í að vera jafn lúmskur og hann í að vera fantur

Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn.
Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleikskappinn Ragnar Örn Bragason ræddi einvígi sín við Brynjar Þór Björnsson í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni á Karfan.is á dögunum.

Ragnar Þór varð Íslandsmeistari með Þór frá Þorlákshöfn á síðustu leiktíð en hann er uppalinn hjá ÍR í Breiðholti en gekk til liðs við Þórsara árið 2015.

Ragnar hefur verið í lykilhlutverki hjá Þórsurum undanfarin ár og háð harðar baráttur við Brynjar Þór sem leikur með KR.

„Ég hef alltaf elskað að horfa á Brynjar Þór Björnsson spila körfubolta,“ sagði Ragnar Örn í þættinum.

„Hann er frábær þriggja stiga skytta og ég væri líka alveg til í að vera jafn lúmskur og hann í að vera fantur. Ég held að hann geti verið sammála mér að hann hafi heldur ekkert voðalega gaman að keppa á móti mér.

Ég hef gaman af því að gefa honum létt olnbogaskot og fá það til baka. Ég man þegar ég var í ÍR, þá fékk ég heldur betur að finna fyrir honum. Þá meiddi ég hann eitthvað og hann lét mig heldur betur finna fyrir því,“ sagði Ragnar meðal annars.

mbl.is