Byrjunin eins slæm og hún gat orðið

Craig Pedersen og Kristinn Pálsson í leiknum í kvöld.
Craig Pedersen og Kristinn Pálsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, sagði Rússa hafa haft yfirburði gegn Íslendingum í St. Petersburg í kvöld í undankeppni HM 2023. 

Pedersen var hins vegar ánægður með baráttuandann í íslenska liðinu sem varð til þess að liðið lagaði töluvert stöðuna í síðasta leikhlutanum. 

„Augljóslega var byrjunin eins slæm og hún hefði mögulega getað verið. Þeir höfðu algera yfirburði á öllum sviðum til að byrja með,“ sagði Pedersen og ekki að ástæðulausu því Rússland komst í 16:0 og var yfir 17:4 að loknum fyrsta leikhluta.

„Sendingarnar voru ekki í lagi hjá okkur. Við fengum nokkur sæmileg skotfæri sem ekki tókst að nýta. Þeir komust því snemma í 16:0. Rússarnir eru hávaxnir, sterkir, útsjónarsamir og tæknilega góðir. Þeir lesa leikinn vel og eru samæfðir. Við þurfum að læra af þessu og aðlagast svo við getum spilað á móti líkamlega sterkum liðum í þessum gæðaflokki. Ég er hins vegar ánægður með að við héldum áfram að berjast og tókst að spila nokkuð vel í sókninni í síðari hálfleik. Sérstaklega í fjórða leikhluta. Við hættum ekki og fundum einhverjar lausnir við leik rússneska liðsins. Það var alla vega gott að spila vel í fjórða leikhluta. En við mættum liði sem er mjög hátt skrifað og þeir voru vel undirbúnir.“

Ekki rétti tíminn til að taka áhættu varðandi Martin

Martin Hermannsson gat ekki leikið gegn Rússlandi en hann skoraði 27 stig gegn Hollandi vegna álagsmeiðsla í kálfa. Hvenær vissi þjálfarateymið að hans nyti ekki við gegn Rússum? 

„Ég vissi það ekki fyrir víst fyrr en seint í gærkvöldi eða snemma í morgun. Við höfðum vonast eftir því að hann yrði leikfær en hann hefur verið tæpur vegna meiðsla í nokkurn tíma. Hann fann ekki fyrir neinum óþægindum á æfingum í Hollandi. En hann fann aðeins fyrir þessu eftir leikinn gegn Hollandi og þetta var ekki rétti tímapunkturinn til að taka áhættu varðandi heilsu Martins. Hættan var sú að meiðslin myndu versna og við verðum að sýna félaginu sem hann spilar fyrir [Valencia] tillitssemi. Við tókum ákvörðun í sameiningu, þjálfararnir, sjúkrateymið og Martin sjálfur.

Craig Pedersen fer yfir málin í leiknum gegn Hollandi.
Craig Pedersen fer yfir málin í leiknum gegn Hollandi. Ljósmynd/FIBA


En trúðu mér, Martin vildi virkilega taka þátt í leiknum. Stundum þurfa menn að vera skynsamir. Við erum þakklátir fyrir að njóta krafta hans gegn Hollandi því hann spilaði sérlega vel. Hann átti stóran þátt í sigrinum í Hollandi,“ sagði Craig Pedersen landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert