Erfiður andstæðingur á söguslóðum

Elvar Már Friðriksson lætur vaða gegn Hollendingum.
Elvar Már Friðriksson lætur vaða gegn Hollendingum. Ljósmynd/FIBA

Karlalandsliðið í körfuknattleik mætir í dag firnasterkum andstæðingi þegar liðið mætir Rússlandi í St. Petersburg í dag. 

Mikil hefð er fyrir körfuknattleik í Rússlandi og gömlu Sovétríkjunum. Árið 1988 urðu Sovétmenn ólympíumeistarar í körfuknattleik. Stundum hefur verið sagt að niðurstaðan á leikunum 1988, þar sem bæði Sovétmenn og Júgóslavar voru með mjög sterk lið, hafi orðið til þess að stærstu NBA-stjörnurnar samþykktu að vera með á næstu Ólympíuleikum, árið 1992. Úr varð Draumaliðið svokallaða en frammistaða þess í Barcelona 1992 hafði gífurleg áhrif á vinsældir íþróttarinnar um allan heim. 

Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur hefur Rússland ávallt komist á Eurobasket, lokakeppni EM. Liðið varð Evrópumeistari árið 2007. Rússneska liðið var gagnrýnt fyrir árangurinn á EM 2013 og 2015 þegar liðið hafnaði í 21. og 17. sæti. Úr því var bætt á síðasta EM árið 2017 en þá komst liðið í undanúrslit. 

Á síðasta HM árið 2019 höfnuðu Rússar í 12. sæti og þær ætla sér að komast aftur á HM. Þeir unnu Ítali á dögunum 92:78 og gáfu þar með tóninn. Sem kunnugt er hefur reynt erfitt fyrir landsliðin að fá leikmenn sem leika í Euroleague og NBA í leiki á veturna. Euroleague er með leikdaga sem stangast á við landsleiki. Rússar eiga tvö lið í Euroleague. Stórveldið CSKA Moskva og Unics Kazan. Fulltrúar frá báðum þessum liðum eru í hópnum hjá Rússum og léku gegn Ítalíu á dögunum.

Ef til vill hefur rússneska sambandið getað samið við þessi rússnesku félög en þetta er vísbending um að Rússar taka undankeppnina alvarlega. 

Rússinn Artem Komolov með boltann gegn Ítalíu.
Rússinn Artem Komolov með boltann gegn Ítalíu. Ljósmynd/FIBA

Þetta kom svo sem ekki að sök fyrir CSKA og Kazan. Þau unnu bæði leiki sína í Euroleague á fimmtudag og föstudag. CSKA Moskva vann Bayern München á heimavelli og Unics Kazan vann Rauðu Stjörnuna í Belgrað. 

Ísland vann Holland á útivelli 79:77 á föstudaginn og eru því Rússar og Íslendingar með tvö stig í riðlinum en Ítalir og Hollendingar ekkert.

Framherjinn Anton Astaphkovich var stigahæstur hjá Rússum gegn Ítölum með 21 stig en hann leikur með Nizhny Novgorod. Artem Komolov setti niður fjóra þrista í sex tilraunum en hann leikur með Unics Kazan. Liðinu sem Haukur Helgi Pálsson lék með fyrir nokkrum árum. 

Leikur Rússlands og Íslands hefst klukkan 17 og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is. 

mbl.is