Formaður KKÍ fundar með nýjum ráðherra

Lilja Alfreðsdóttir fráfarandi ráðherra íþróttamála og Ásmundur Einar Daðason sem …
Lilja Alfreðsdóttir fráfarandi ráðherra íþróttamála og Ásmundur Einar Daðason sem nú er tekinn við málaflokknum í nýrri ríkisstjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segir nýjan ráðherra íþróttamála, Ásmund Einar Daðason, nú þegar hafa leitað sér upplýsinga varðandi þeirrar stöðu sem landsliðin í körfuknattleik og handknattleik eru í. 

Eins og margoft hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu og á mbl.is á síðustu árum þá hafa landsliðin fengið sérstakar undanþágur síðustu árin til að spila heimaleiki í Laugardalshöllinni í undankeppnum stórmóta. Hannes segir að til standi að funda á allra næstu dögum en Hannes er nú staddur í Rússlandi þar sem karlalandsliðið spilaði fyrr í kvöld. 

„Ásmundur hafði samband við mig um helgina þegar ljóst var að hann yrði ráðherra íþróttamála. Ég tek það fram að við spjölluðum saman óformlega. Hann vildi taka spjallið og leita upplýsinga. En hann var tiltölulega vil inni í málunum því hann er mikill íþróttaáhugamaður. Úr þessu varð að við ætlum að hittast á allra næstu dögum. Þá munum við setjast niður og ræða þessi mál formlega. Ég finn á Ásmundi að hann hefur töluverðar áhyggjur af þessu og hann hefur mikinn áhuga á að klára málið,“ sagði Hannes þegar mbl.is spurði hann út í gang mála í kvöld. 

Hannes Sigurbjörn Jónsson, Bjarni Benediktsson frjámálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og …
Hannes Sigurbjörn Jónsson, Bjarni Benediktsson frjámálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðbjörg Norðfjörð, varaformaður KKÍ. Eggert Jóhannesson

Hannes segir að nú þurfi að grípa til aðgerða. Íþróttahreyfingin geti ekki beðið lengur þegar Laugardalshöllin stenst ekki alþjóðlegar kröfur. 

„Nú snýst þetta um að klára málið. Það þarf að setja pening í verkefnið, ákveða staðarval og annað. Þetta mál má ekki bíða til loka kjörtímabilsins því ef það gerist þá verðum við bara enn á sama stað og þá mun ekkert gerast næstu tíu árin. Í lok þessa kjörtímabils þurfum við að sjá nýjan þjóðarleikvang vera tilbúinn til notkunar, eða nánast. En ég hef trú á því að Ásmundur klári málið,“ sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson í samtali við mbl.is 

mbl.is