Landsliðsmaðurinn loksins klár í slaginn

Haukur Helgi Pálsson í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Helgi Pálsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson er klár í slaginn á nýjan leik og verður í leikmannahóp Njarðvíkur þegar liðið tekur á móti Vestra í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, á föstudaginn kemur í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni en Haukur Helgi snéri heim úr atvinnumennsku í sumar og samdi við Njarðvíkinga.

Hann hefur verið að glíma við ökklameiðsli undanfarna mánuði og því ekkert leikið með liðinu það sem af er tímabili.

„Ég er tilbúinn í nokkrar mínútur núna gegn Vestra en stefni að því að vera orðinn nokkuð sprækur í næsta bikarleik,“ sagði Haukur í samtali við heimasíðu Njarðvíkur.

„Maður er að reyna að vera skynsamur og fara ekki of geyst í hlutina. Það á allt að vera gróið en nú vantar bara upp á snerpu, sprengikraft og leikform,“ bætti Haukur við.

Njarðvík er í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar með 8 stig eftir fyrstu sjö leiki sína, fjórum stigum minna en topplið Þórs frá Þorlákshöfn og Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert