Fjölnir sótti stigin til Keflavíkur

Dagný Lísa Davíðsdóttir lék mjög vel með Fjölni í kvöld.
Dagný Lísa Davíðsdóttir lék mjög vel með Fjölni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Fjölniskonur gerðu góða ferð til Reykjanesbæjar í kvöld og unnu þar sigur á Keflvíkingum, 95:90, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, en lokatölur urðu 95:90.

Fjölnir er þá með 14 stig eftir tíu leiki, jafnmörg og Valur og Njarðvík, en Njarðvíkingar eru að spila við Grindvíkinga þessa stundina. Keflavík situr eftir með 12 stig í fjórða sæti deildarinnar. Haukar eru með 8 stig en hafa aðeins spilað sex leiki.

Fjölnir byrjaði betur og var með 20:10 forystu eftir fyrsta leikhlutann. Í hálfleik var staðan 44:40, Fjölniskonum í hag, en þær juku forskotið á ný í þriðja leikhluta. Að honum loknum voru þær fjórtán stigum yfir, 71:57. 

Tíu stigum munaði á liðunum þegar fjórar mínútur voru eftir en þá tóku Keflvíkingar mikinn kipp og jöfnuðu, 84:84, þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum. Sanja Orozovic kom Fjölni strax í 87:84 með þriggja stiga körfu og síðan í 91:86 með tveimur vítaskotum þegar hálf mínúta var eftir. Liðin fóru á vítalínuna til skiptis í lokin en Fjölnir hélt fengnum hlut og vann fimm stiga sigur.

Dagný Lísa Davíðsdóttir átti stórleik með Fjölni en hún skoraði 30  stig og tók 13 fráköst. Sanja Orozovic skoraði 24 stig og tók sjö fráköst og Aliyah Daija Mazyck var með 24 stig og níu fráköst.

Daniela Wallen var atkvæðamest Keflvíkinga með 29 stig og 12 fráköst, Eygló Kristín Óskarsdóttir skoraði 15 stig og Ólöf Rún Óladóttir 14.

Gangur leiksins: 2:8, 4:13, 10:18, 10:20, 16:27, 24:31, 32:38, 40:44, 42:51, 48:57, 55:63, 57:71, 65:79, 67:79, 79:84, 90:95.

Keflavík: Daniela Wallen Morillo 29/12 fráköst/5 stoðsendingar, Eygló Kristín Óskarsdóttir 15/7 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 14, Anna Ingunn Svansdóttir 12, Agnes María Svansdóttir 11, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 6/4 fráköst, Tunde Kilin 3.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

Fjölnir: Dagný Lísa Davíðsdóttir 30/13 fráköst, Sanja Orozovic 24/7 fráköst, Aliyah Daija Mazyck 24/9 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 12, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 3, Iva Bosnjak 2.

Fráköst: 28 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Sigurbaldur Frimannsson, Stefán Kristinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert