Holland í háum gæðaflokki

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands.
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands. Ljósmynd/FIBA

Eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni HM karla í körfuknattleik er Ísland í sömu stöðu og Ítalía en þjóðirnar munu takast á í febrúar. Þær hafa báðar unnið Holland með tveggja stiga mun og hafa báðar tapað fyrir Rússlandi.

Íslendingar hófu undankeppnina á tveimur útileikjum. Ísland vann Holland 79:77 á föstudaginn en tapaði 89:65 gegn Rússlandi á mánudaginn. Ísland þurfti að fara í forkeppni fyrir HM en vann sig í gegnum hana og komst þannig inn í H-riðil undankeppninnar. Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen segir að fleira jákvætt en neikvætt sé að finna í leik íslenska liðsins í fyrstu tveimur leikjunum.

„Það er ekki nokkur spurning. Ef mér hefði boðist fyrir ferðina að þiggja einn sigur í þessum tveimur leikjum þá hefði ég þegið það. Leikur hollenska liðsins hefur verið í háum gæðaflokki síðustu árin. Í síðustu undankeppni unnu Hollendingar leiki gegn bæði Króatíu og Tyrklandi sem í báðum tilfellum eru mjög stórar körfuboltaþjóðir. Holland er því með sterkt lið og hjá þeim vantaði enga leikmenn í þetta skiptið. Sigurinn gegn Hollandi var því mjög stór fyrir okkur.

Við höfum oft talað um hversu erfitt sé að vinna útileiki í undankeppnunum fyrir stórmótin og í því ljósi voru þetta afar góð úrslit gegn Hollandi. Lið Hollendinga er gott og það tapaði í framhaldinu jöfnum leik með tveggja stiga mun gegn Ítalíu á útivelli,“ sagði Pedersen þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Næst á dagskrá hjá Íslendingum í H-riðlinum eru tveir leikir gegn Ítalíu í febrúar. Þá stendur til að leika heima og að heiman en útfærslan á því verður að koma í ljós þar sem óljóst er hvenær Laugardalshöllin verður tekin aftur í notkun eftir vatnsskemmdir. Og hvort Íslendingar fái þá undanþágu frá Alþjóðakörfuknattleikssambandinu til að spila í Laugardalshöllinni.

Leikurinn gegn Rússum gæti reynst góður undirbúningur

Hvar svo sem leikirnir gegn Ítalíu fara fram þá er ljóst að ítalska liðið er hærra skrifað en það íslenska þótt úrslitin í leik Ítalíu og Hollands séu í meira lagi athyglisverð. Landsliðsþjálfarinn segir að draga megi lærdóm af leiknum við Rússa.

Viðtalið við Pedersen má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert