Phoenix stöðvaði Golden State – Brooklyn vann grannaslaginn

Chris Paul og Jordan Poole í baráttunni í nótt.
Chris Paul og Jordan Poole í baráttunni í nótt. AFP

Phoenix Suns hélt áfram ótrúlegu gengi sínu í NBA-deildinni í körfuknattleik karla þegar liðið lagði annað sjóðheitt lið, Golden State Warriors, í nótt. Phoenix hefur nú unnið 17 leiki í röð í deildinni.

Phoenix vann að lokum 104:96 sigur og má að stóru leyti skrifa sigurinn á að Steph Curry, stjarna Golden State, náði sér engan veginn á strik í leiknum.

Skoraði hann 12 stig og hitti úr aðeins fjórum af 21 skoti sínu í leiknum.

Jordan Poole liðsfélagi hans steig upp og skoraði 28 stig en það reyndist ekki nóg.

DeAndre Ayton var stigahæstur Phoenix-manna og náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 24 stig og tók 11 fráköst.

Reynsluboltinn Chris Paul lék sömuleiðis vel og náði tvöfaldri tvennu með því að skora 15 stig og gefa 11 stoðsendingar.

Með því að hafa unnið 17 leiki í röð er Phoenix búið að jafna met sitt yfir flesta sigra í röð, en liðið vann einnig 17 leiki í röð í deildinni tímabilið 2006/2007.

Á sama tíma fór fram grannaslagur Brooklyn Nets og New York Knicks. Þar vann Brooklyn nauman 112:110 sigur þar sem James Harden fór á kostum fyrir liðið.

Náði hann tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 34 stig og tók 10 fráköst að auki.

Kevin Durant lét einnig vel að sér kveða í liði Brooklyn og gerði 27 stig.

Stigahæstir New York-manna voru Alec Burks með 25 stig og Julius Randle með 24 stig.

Alls fóru fimm leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Phoenix – Golden State 104:96

Brooklyn – New York 112:110

Sacramento – LA Lakers 92:117

Portland – Detroit 110:92

Toronto – Memphis 91:98

mbl.is