Stærsti sigur í sögu NBA-deildarinnar

Menn gátu leyft sér að fagna hjá Memphis Grizzlies í …
Menn gátu leyft sér að fagna hjá Memphis Grizzlies í nótt. AFP

Memphis Grizzlies setti met í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar liðið rótburstaði Oklahoma City Thunder 152:79 í Memphis. 

Er þetta stærsti sigur í sögu deildarinar og sló Memphis 30 ára gamalt met frá því Cleveland Cavaliers vann Miami Heat með 68 stiga mun árið 1991. Í nótt munaði 73 stigum á liðunum. 

Jaren Jackson jr. skoraði 27 stig fyrir Memphis en allir leikmenn liðsins skoruðu í leiknum. 

Devin Booker og Chris Paul eru í stórum hlutverkum hjá …
Devin Booker og Chris Paul eru í stórum hlutverkum hjá Phoenix Suns. AFP

Phoenix Suns vann í nótt átjánda leikinn í röð og jafnaði með því félagsmet. Phoenix vann Detroit Pistons í Arizona 114:103. Chris Paul stjórnar liðinu vel inni á vellinum og gaf í nótt 12 stoðsendingar en þeir Cameron Johnson og Cameron Payne voru stigahæstir með 19 stig. 

Meistararnir í Milwaukee Bucks töpuðu óvænt fyrir Toronto Raptors en Giannis Antetokounmpo lék ekki með vegna meiðsla í kálfa. 

Úrslit: 

New York - Chicago 115:119

Toronto - Milwaukee 97:93

Memphis - Oklahoma 152:79

Phoenix - Detroit 114:103

Portland - San Antonio 83:114

mbl.is