Stigunum rigndi niður í Atlanta

Miles Bridges fór fyrir Charlotte Hornets í nótt.
Miles Bridges fór fyrir Charlotte Hornets í nótt. AFP

Charlotte Hornets vann nauman sigur, 130:127, þegar liðið heimsótti Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Eins og sjá má á lokatölunum var afskaplega mikið skorað, þar sem þeir Miles Bridges og Kelly Oubré Jr. voru stigahæstir Charlotte-manna. Bridges skoraði 32 stig og Oubré Jr. 28.

Í liði Atlanta áttu þrír leikmenn sannkallaðan stórleik. John Collins var með tvöfalda tvennu þegar hann skoraði 31 stig og tók 12 fráköst.

Kevin Huerter skoraði 28 stig og Trae Young náði þá einnig tvöfaldri tvennu með því að skora 25 stig og gefa 15 stoðsendingar.

Houston Rockets vann þá New Orleans Pelicans, 118:108, þar sem stórleikur Brandon Ingram fyrir New Orleans dugði ekki til.

Ingram skoraði 40 stig í leiknum.

Alls fóru þrír leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Atlanta – Charlotte 127:130

Houston – New Orleans 118:108

Toronto – Washington 102:90

mbl.is