Þórir í atvinnumennsku til Hollands

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson mun reyna fyrir sér í atvinnumennsku.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson mun reyna fyrir sér í atvinnumennsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksmaðurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson hef­ur samið við hollenska félagið Landstede Hammers frá Zwolle og mun leika með félaginu út yfirstandandi tímabil.

Landsliðsmaðurinn Þórir Guðmundur fer frá uppeldisfélagi sínu KR þar sem hann hefur leikið frá því í lok síðasta tímabils eftir að hafa leikið með Nebraska Cornhusker í bandaríska háskólaboltanum í fjögur ár þar á undan.

Hann hefur leikið afar vel með KR á yfirstandandi tímabili en fær nú tækifæri í hinni sterku BNXT-deild, sem er sameiginleg úrvalsdeild Hollands og Belgíu. Landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson er þar á mála hjá belgíska liðinu Antwerp Giants og Snorri Vignisson leikur með hollenska liðinu Hague Royals.

Í samtali við heimasíðu KR sagði Þórir að spennandi tímar væru fram undan þrátt fyrir að ávallt væri erfitt að yfirgefa KR.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu, þetta er frábært tækifæri í skemmtilegri deild. Á sama tíma er erfitt að skilja við KR á miðju tímabili og ég er þakklátur fyrir stuðninginn og skilninginn. Ég óska liðinu góðs gengis og fylgist spenntur með,“ sagði hann.

„Körfuknattleiksdeild KR vill koma á fram­færi innilegum þökk­um til Þóris og ósk­um við hon­um alls hins besta í Evrópu. Við hlökkum þess að fá hann aftur heim, hvenær sem sá tími kemur,“ sagði í tilkynningu körfuknattleiksdeildar KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert