Valur sló bikarmeistarana úr leik

Pablo Bertone skoraði 21 stig fyrir Val í kvöld.
Pablo Bertone skoraði 21 stig fyrir Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Kristófer Acox átti stórleik fyrir Val þegar liðið sló ríkjandi bikarmeistara Njarðvíkur úr leik í átta-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með eins stigs sigri Vals, 72:71, en Kristófer skoraði 25 stig í leiknum og tók tólf fráköst.

Valsmenn voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta og leiddu 25:16 að honum loknum. Njarðvíkingar snéru leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og leiddu 44:40 í hálfleik.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru sex stigum yfir fyrir fjórða leikhluta, 64:58. Njarðvíkingum tókst að minnka muninn í eitt stig, 71:72 þegar 45 sekúndur voru til leiksloka.

Valsmenn reyndu þriggja stiga skot sem geigaði og Nicolas Richotti fékk gullið tækifæri til að tryggja Njarðvík sigur þegar fimm sekúndur voru til leiksloka en skot hans undir körfunni missti marks.

Pablo Bertone skoraði 21 stig fyrir Val og Callum Lawson skoraði 12 stig og tók sex fráköst.

Dedrick Basile var stigahæstur Njarðvíkinga með 24 stig og sex fráköst, Fotios Lampropoulos skoraði 13 stig og tók sextán fráköst.

Það verða því Valur, Keflavík, Stjarnan og Þór frá Þorlákshöfn sem verða í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin.

Valur - Njarðvík 72:71

Origo-höllin, VÍS bikar karla, 13. desember 2021.

Gangur leiksins:: 2:4, 7:13, 15:16, 25:16, 29:21, 31:28, 35:37, 40:44, 46:44, 52:48, 57:52, 64:58, 68:61, 68:63, 70:66, 72:71.

Valur: Kristófer Acox 25/12 fráköst, Pablo Cesar Bertone 21, Callum Reese Lawson 12/6 fráköst, Kári Jónsson 9/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sveinn Búi Birgisson 3, Pavel Ermolinskij 2/15 fráköst.

Fráköst: 32 í vörn, 10 í sókn.

Njarðvík: Dedrick Deon Basile 24/6 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 13/16 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 10, Nicolas Richotti 9, Mario Matasovic 7/11 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 3, Logi Gunnarsson 3, Ólafur Helgi Jónsson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Gunnlaugur Briem, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 100

mbl.is