Endurkoma eftir hálft þriðja ár

Klay Thompson hefur átt glæsilegan feril með Golden State og …
Klay Thompson hefur átt glæsilegan feril með Golden State og freistar þess nú að komast aftur af stað með liðinu. AFP

Fáir íþróttamenn hafa þurft að bíða jafnlengi eftir því að snúa aftur til keppni og bandaríski körfuboltamaðurinn Klay Thompson sem nú eygir von um að spila á ný næsta sunnudag.

Thompson sem leikur með Golden State Warriors var í stóru hlutverki í liðinu sem vann NBA-deildina 2015, 2017 og 2018. Undanfarin tvö tímabil sem Thompson hefur alveg misst af vegna meiðsla hefur Golden State hinsvegar ekki komist í úrslitakeppnina.

Thompson er 31 árs Kaliforníubúi og hefur leikið allan sinn NBA-feril með Golden State en á átta tímabilum með liðinu hefur hann skorað 19,5 stig að meðaltali í leik. Hann er mögnuð þriggja stiga skytta og er með 41,9 prósent skotnýtingu af því færi á ferlinum. Hann setti NBA-met þegar hann skoraði fjórtán 3ja stiga körfur í leik gegn Chicago Bulls í október árið 2018.

ESPN skýrir frá endurkomu Thompsons og segir að hjá Warriors séu menn bjartsýnir á að fyrsti leikur hans í tvö og hálft ár verið heimaleikurinn gegn Cleveland Cavaliers á sunnudaginn. Liðið er þessa stundina að búa sig undir heimaleik gegn Miami Heat sem fer fram í nótt og síðan taka við tveir útileikir gegn Dallas og New Orleans á miðvikudags- og fimmtudagskvöld.

Samkvæmt ESPN mun Golden State ekki staðfesta hvort Thomnpson spili á sunnudaginn fyrr en að loknu ferðalaginu til Texas og Louisiana.

Thompson sleit krossband í hné í úrslitakeppninni vorið 2019, og það kostaði hann alveg tímabilið 2019-20. Þegar hann var að komast aftur af stað haustið 2020 sleit hann hásin í fæti og þar með var hann líka úr leik allt tímabilið 2020-21. Hann hefur síðustu vikurnar komið sér af stað á ný með því að spila með Santa Cruz Warriors, varaliði Golden State í NBA G-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert