Er ekki að fara að þvinga hann í bólusetningu

Kevin Durant ætlar ekki að þrýsta á Kyrie Irving.
Kevin Durant ætlar ekki að þrýsta á Kyrie Irving. AFP

Kevin Durant, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik, segist ekki hafa rætt við Kyrie Irving liðsfélaga sinn um að þiggja bólusetningu við kórónuveirunni, sem myndi gera honum kleift að spila alla leiki með liðinu í stað flestra útileikja.

Irving sneri aftur á völlinn í vikunni þegar Brooklyn vann útisigur á Indiana Pacers en gat ekki spilað í nótt þegar liðið tapaði fyrir Milwaukee  Bucks á heimavelli þar sem reglur í New York-ríki kveða á um að óbólusettir megi ekki taka þátt í stórum viðburðum.

„Ég sagði honum hversu mikilvægur hann er, hversu mikið ég vil að hann spili og spili hvern einasta leik. En ég er ekki að fara að þvinga neinn til þess að þiggja bólusetningu, það er ekki eitthvað sem ég geri.

Til þess að hann geti spilað körfubolta? Nei, ég er ekki að fara að gera það,“ sagði Durant í samtali við ESPN eftir tapið gegn Milwaukee í nótt. 

Hann sagði að Irving sjálfur þyrfti að taka ákvörðun og að allir hjá Brooklyn myndu styðja hann hver svo sem sú ákvörðun verður.

„Við höfum rætt um að hann vilji vera hluti af liðinu og að hann verði hér að fullu, en hann tekur þá ákvörðun á sínum eigin tíma. Hvað svo sem hann vill gera gerir hann.

Það er undir okkur komið að vera atvinnumenn hvað sem á bjátar og sinna störfum okkar svo að þegar hann er reiðubúinn verði hann það að fullnustu,“ bætti Durant við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert