Lakers og Chicago áfram á sigurbraut

LeBron James átti stórleik fyrir LA Lakers í nótt.
LeBron James átti stórleik fyrir LA Lakers í nótt. AFP

Reynsluboltinn LeBron James fór fyrir LA Lakers þegar liðið vann sinn fjórða leik í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Chicago Bulls vann þá sinn níunda leik í röð í deildinni.

James skoraði 32 stig stig í 134:118 sigri Lakers á Atlanta Hawks, þar af 23 stig í síðari hálfleik.

Liðsfélagi hans Malik Monk var skammt undan með 29 stig, sem er mesti stigafjöldi hans á tímabilinu til þessa.

Trae Young var stigahæstur Atlanta-manna með 25 stig.

Zach LaVine átti enn einn stórleikinn fyrir Chicago þegar hann skoraði 27 stig í 130:122 sigri liðsins gegn Washington Wizards.

Svartfellingurinn Nikola Vucevic náði tvöfaldri tvennu fyrir Chicago er hann skoraði 16 stig og tók 14 fráköst.

Bradley Beal var stigahæstur í liði Washington með 26 stig náði liðsfélagi hans, Kyle Kuzma, tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 21 stig og tók 11 fráköst.

Ríkjandi NBA-meistarar Milwaukee Bucks vann þá góðan 121:109 sigur á Brooklyn Nets þar sem stórstjörnurnar Giannis Antetokounmpo og Kevin Durant fóru fyrir sínum mönnum.

Anteotokounmpo skoraði 31 stig fyrir Milwaukee og Durant 29 stig fyrir Brooklyn.

Alls fóru níu leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

LA Lakers - Atlanta 134:118

Chicago - Washington 130:122

Brooklyn - Milwaukee 109:121

Philadelphia - San Antonio 119:100

Toronto - Utah 122:108

Houston - Dallas 106:130

Oklahoma - Minnesota 105:135

Denver - Sacramento 121:111

Portland - Cleveland 101:114

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert