Spilar sinn fyrsta leik í tvö og hálft ár

Klay Thompson hefur ekki spilað í NBA-deildinni í afar langan …
Klay Thompson hefur ekki spilað í NBA-deildinni í afar langan tíma. AFP

Klay Thompson, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, er orðinn leikfær á ný eftir að hafa verið frá vegna meiðsla frá því í júní árið 2019.

Thompson hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin tvö og hálft ár þar sem hann sleit upphaflega krossband í vinstra hnéi í leik gegn Toronto í úrslitakeppni NBA.

Í nóvember árið 2020, þegar Thompson var að nálgast endurkomu, varð hann fyrir því óláni að slíta hásin á hægri fæti á æfingu.

Thompson kveðst afskaplega spenntur fyrir því að snúa aftur í nótt þegar topplið Golden State fær Cleveland Cavaliers í heimsókn.

„Venjulega líkar mér það illa að notast við frasann „get ekki beðið“ því ég vil lifa í núinu í mínu lífi. En ég get ekki beðið eftir því að spila fyrir framan stuðningsmenn okkar á ný.

Ég nýt þess til hins ítrasta að vera leikmaður Golden State,“ sagði Thompson í stuttri yfirlýsingur sem liðið birti á samfélagsmiðlum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert