Sannfærandi útisigur í toppslagnum

James Harden og Kevin Durant fagna körfu fyrir Brooklyn í …
James Harden og Kevin Durant fagna körfu fyrir Brooklyn í seinni hálfleiknum í Chicago í nótt. AFP

Brooklyn Nets vann glæsilegan útisigur í nótt á toppliði Austurdeildar NBA, Chicago Bulls, en leikur liðanna í Vindaborginni endaði með stórsigri Brooklyn, 138:112.

Þar var James Harden í stóru hlutverki en hann skoraði 25 stig og átti hvorki fleiri né færri en 16 stoðsendingar fyrir Brooklyn. Kevin Durant skoraði 27 stig en Zach LaVine var atkvæðamestur hjá Chicago með 22. Brooklyn gerði út um leikinn í þriðja leikhluta með því að skora 39 stig gegn 19. Kyrie Irving var með Brooklyn eins og í flestum útileikjum liðsins en hafði hægt um sig og skoraði níu stig.

Chicago heldur þó efsta sætinu með 27 sigra í 39 leikjum en Brooklyn er í öðru sæti með 26 sigra í 40 leikjum.

DeAaron Fox skoraði 29 stig fyrir Sacramento Kings sem lagði LA Lakers í Kaliforníuslag, 125:116. LeBron James skoraði 34 stig fyrir Lakers.

DeJounte Murray skoraði 32 stig, átti 11 stoðsendingar og tók 10 fráköst fyrir San Antonio Spurs gegn Houston Rockets í uppgjöri Texasliðanna. Það dugði þó ekki og Houston vann 128:124. Fjórða tap San Antonio í röð.

Úrslitin í nótt:

Indiana - Boston 100:119
Philadelphia - Charlotte 98:109
Washington - Orlando 112:106
Atlanta - Miami 91:115
New York - Dallas 108:85
San Antonio - Houston 124:128
Utah - Cleveland 91:111
Chicago - Brooklyn 112:138
Sacramento - LA Lakers 125:116

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert