Einn sá besti meiddist á hné - þarf í segulómun

Kevin Durant
Kevin Durant AFP

Einn besti körfuboltamaður heims, Kevin Durant, sem leikur með Brooklyn Nets í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta meiddist á hné í leik liðsins gegn New Orleans Pelicans í nótt.

Liðsfélagi Durant, Bruce Brown, var keyrður niður af Herbert Jones leikmanni Pelicans, með þeim afleiðingum að Brown datt á hné Durant sem spenntist upp. Durant spilaði einungis rúmlega 12 mínútur í leiknum og kom ekkert meira við sögu eftir þetta atvik.

Þjálfari Brooklyn, Steve Nash, sagði að Durant færi í segulómun í dag og þá kæmi betur í ljós hversu alvarleg meiðslin séu.

Durant hefur verið algjörlega frábær á þessu tímabili, en hann hefur skorað að meðaltali 29,7 stig í leik, tekið 7,5 fráköst og gefið 5,9 stoðsendingar. Margir telja hann sigurstranglegan til að vinna verðlaun sem verðmætasti leikmaður deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert