Óvænt úrslit í San Francisco

Torrey Craig hjá Indiana Pacers stöðvar Stephen Curry hjá Golden …
Torrey Craig hjá Indiana Pacers stöðvar Stephen Curry hjá Golden State Warriors í framlengingunni í nótt. AFP

Indiana Pacers hefur ekki gengið sérlega vel á þessu tímabili í NBA-deildinni í körfuknattleik en í nótt kom liðið verulega á óvart á útivelli gegn hinu geysisterka liði Golden State Warriors.

Indiana knúði fram sigur, 121:117, eftir framlengingu þar sem staðan var 110:110 eftir venjulegan leiktíma. Chris Duarte skoraði 27 stig fyrir Indiana og Justin Holiday 16 en Stephen Curry stóð uppúr í liði Golden State og skoraði 39 stig. Holiday tryggði Indiana framlenginguna með þriggja stiga körfu þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum. Fjóra byrjunarliðsmenn vantaði í lið Indiana en það kom ekki að sök.

Litlar líkur eru á að Indiana komist í úrslitakeppnina en þetta var 17. sigur liðsins í 46 leikjum og það er í þrettánda sæti af fimmtán liðum í Austurdeildinni. Golden State er hinsvegar með 32 sigra í 45 leikjum og í öðru sæti Vesturdeildar, á eftir Phoenix Suns.

Phoenix vann einmitt sinn 35. sigur í 44 leikjum, og fimmta útisigurinn í röð, og lagði Dallas Mavericks á útivelli, 109:101. Devin Booker skoraði 28 stig fyrir Phoenix og Chris Paul var með 20 stig og 11 stoðsendingar en Luka Doncic skoraði 28 stig fyrir Dallas.

Í þriðja leik næturinnar vann New Orleans Pelicans útisigur á New York Knicks, 102:91. Litháinn Jonas Valaciunas var með 18 stig og 10 fráköst fyrir New Orleans en Mitchell Robinson skoraði 17 stig og tók 15 fráköst fyrir New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert