Axel Nikulásson fallinn frá

Axel Nikulásson
Axel Nikulásson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Körfuboltakappinn Axel Nikulásson er fallinn frá 59 ára að aldri. Þetta kemur fram á vefnum karfan.is.

Þar segir að Axel hafi barist við veikindi. „Þrátt fyrir hetjulega baráttu náði hann ekki að sigrast á því eins og svo mörgum stórsigrum á sínum ferli í boltanum,“ segir á vef Körfunnar.

Axel spilaði lengi vel með Keflavík og varð meistari með liðinu þegar þeir hrepptu sinn fyrsta titil árið 1989. Eftir það fór hann til KR þar sem hann vann titil ári síðar. Sjálfur var Axel uppalinn Keflvíkingur en bjó um tíma í Bandaríkjunum meðan hann stundaði þar nám.

Í seinni tíð tók Axel að sér þjálfun hjá KR í úrvalsdeildinni og tók við 1976-árgangs landsliðinu en Axel átti að baki sér 63 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Eftir körfuboltaferilinn starfaði hann fyrir utanríkisráðuneytið meðal annars og bjó erlendis um hríð, m.a. í New York, Peking og London.

mbl.is