Haukakonur styrktu stöðuna

Lovísa Björt Henningsdóttir átti góðan leik með Haukum í kvöld.
Lovísa Björt Henningsdóttir átti góðan leik með Haukum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukakonur styrktu stöðu sína í toppbaráttu úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í kvöld þegar þær unnu góðan útisigur á Keflvíkingum, 80:72.

Þær hafnfirsku eiga inni leiki á toppliðin en þær eru komnar með 12 stig eftir aðeins 10 leiki. Njarðvík og Fjölnir eru með 20 stig og Valur 16 en Haukar eiga tvo og þrjá leiki til góða á keppinautana. Keflavík er í fimmta sætinu með 10 stig úr 12 leikjum og möguleikar liðsins á að komast í úrslitakeppnina dvína talsvert með þessu  tapi.

Leikurinn var í járnum lengi vel, staðan 40:37, Haukum í vil, í hálfleik og síðan 54:54 eftir þriðja leikhluta. Á lokasprettinum voru Haukar hinsvegar sterkari, náðu tíu stiga forskoti þegar þrjár mínútur voru eftir, 74:64. Það var of mikið fyrir Keflvíkinga.

Keira Robinson skoraði 24 stig fyrir Hauka, tók 15 fráköst og átti 9 stoðsendingar. Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði 19 stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir 15.

Agnes María Svansdóttir skoraði 14 stig fyrir Keflavík og Tunde Kilin 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert