Besta skorið eftir endurkomuna

Klay Thompson sækir að körfu Minnesota í leiknum í San …
Klay Thompson sækir að körfu Minnesota í leiknum í San Francisco í nótt. AFP

Golden State Warriors og Philadelphia 76ers fögnuðu sigrum í leikjunum tveimur sem fram fóru í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þau fengu lið Minnesota Timberwolves og Los Angeles Lakers í heimsókn.

Joel Embiid hélt uppteknum hætti með Philadelphia og skoraði 26 stig í sigrinum á Lakers. Hann hefur þar með náð að skora 25 stig eða meira í sextán leikjum í röð. 

Anthony Davis var atkvæðamestur hjá Lakers en hann skoraði 31 stig og tók 12 fráköst.

Philadelphia er í fimmta sæti Austurdeildar með 29 sigra í 48 leikjum en Lakers er í níunda sæti Vesturdeildar með 24 sigra í 49 leikjum.

Klay Thompson er að komst smám saman í gang með Golden State eftir tveggja og hálfs árs fjarveru vegna meiðsla og skoraði 23 stig gegn Minnesota en það er hans besta stigaskor til þessa eftir endurkomuna. Stephen Curry skoraði 29 stig fyrir Golden State.

Golden State er í öðru sæti Vesturdeildar með 36 sigra í 49 leikjum, á eftir Phoenix sem er með 38 sigra í 47 leikjum. Minnesota er í áttunda sæti með 24 sigra í 48 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert