Njarðvík endurheimti toppsætið

Aliyah Collier, til vinstri, var sem fyrr atkvæðamikil í liði …
Aliyah Collier, til vinstri, var sem fyrr atkvæðamikil í liði Njarðvíkinga. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Njarðvík tyllti sér á toppinn í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, þegar liðið heimsótti Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði í 15. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 78:70-sigri Njarðvíkur þar sem Diane Diéné var stigahæst í liði Njarðvíkur með 17 stig og 7 fráköst.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Njarðvíkingar með fimm stigum í hálfleik, 42:37.

Njarðvík jók forskot sitt í 10 stig í þriðja leikhluta, 59:49, en Haukum tókst að minnka forskot Njarðvíkur í 2 stig þegar 50 sekúndur voru til leiksloka.

Njarðvíkingar voru hins vegar sterkari undir restina og skoruðu síðustu sex stig leiksins.

Aliyah Collier skoraði 15 stig fyrir Njarðvík og tók 17 fráköst en Keira Robinson var atkvæðamest í liði Hauka með 26 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Njarðvík er með 24 stig, líkt og Fjölnir, í efsta sætinu en Haukar eru í því fjórða með 18 stig.

mbl.is