Njarðvík upp í toppsætið

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson sækir að körfu ÍR-inga í kvöld.
Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson sækir að körfu ÍR-inga í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Njarðvík fór upp í 32 stig og upp í toppsætið í Subway-deild karla í körfubolta með 109:105-sigri á ÍR er liðin mættust í Breiðholtinu í kvöld. ÍR er áfram í tíunda sæti með 14 stig og ekki á leiðinni í úrslitakeppnina.

Þór frá Þorlákshöfn getur endurheimt toppsætið með sigri á Tindastóli á morgun. 

ÍR byrjaði töluvert betur og náði mest 14 stiga forskoti í fyrri hálfleik. Njarðvík gafst hinsvegar ekki upp og náði mest 12 stiga forskoti í seinni hálfleik í mjög sveiflukenndum leik.

Eftir áhlaup til skiptis var staðan að lokum jöfn eftir venjulegan leiktíma, 91:91. Eftir spennandi framlengingu var það að lokum Njarðvík sem fagnaði sætum sigri.

Nicolas Richotti var stigahæstur hjá Njarðvík með 27 stig og Dedrick Basile skoraði 24 og gaf átta stoðsendingar. Jordan Semple skoraði 31 stig og tók 18 fráköst fyrir ÍR og Igor Maric skoraði 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert