Njarðvíkingar kórónuðu frábært tímabil

Mario Matasovic skorar gegn Keflavík í kvöld.
Mario Matasovic skorar gegn Keflavík í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvíkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Subwaydeild karla og þar með heimavallaréttinn í úrslitakeppninni þegar þeir sigruðu Keflavík í kvöld í lokaumferðinni. 98:93 varð loka niðurstaða kvöldsins en það voru heimamenn sem leiddu allt kvöldið og nokkuð auðvelt að segja sigurinn verðskuldaðan. 

Keflvíkingar gerðu ansi góða atlögu að sigrinum í kvöld á lokasprettinum en Njarðvíkingar svellkaldir stóðust prófið og fögnuðu vel þegar þeir tóku á móti deildarmeistaratitilnum. 

Það í raun og veru skiptir engu máli staða Reykjanesbæjarrisana í deildinni fyrir þessa leiki í körfuboltanum, alltaf eru þetta hörku leikir og kvöldið í kvöld var engin undantekning. Njarðvíkingar kórónuðu geggjað tímabil sitt í kvöld með þessum sigri og eflaust er þessi titill þeirra örlítið sætari þar sem þeir lönduðu þessu gegn grönnum sínum hinumegin við lækinn. 

Að landa þessum titli er stórt afrek sér í lagi eins sterk og deildin er orðin og það eru ekki nema í raun nokkrar körfur til og frá í vetur,  og þá hefði þessi titill hæglega getað lent í höndunum á þremur til fjórum öðrum liðum.  En þetta kvöldið komu Njarðvíkingar sem þrumugnýr inn í kvöldið í formi góðrar varnar og sjálfstraust þeirra nokkuð hátt þessa dagana.

Það er í raun erfitt að taka út hjá þeim leikmann þetta kvöldið sem skaraði framúr. Dedrick Basile lék nánast gallalaust í fyrri hálfleik á meðan Fotis Lambropoulus átti fanta góðan seinni hálfleik.  Keflvíkingar áttu spretti þetta kvöldið og sem fyrr segir létu Njarðvíkinga virkilega hafa fyrir sigrinum en það dugði ekki til.  Keflvíkingar virðast hægt en örygglega vera að finna sína fjöl eftir að hafa verið að breyta og bæta yfir tímabilið. Þeir líta út fyrir að vera feykilega sterkir inn í úrslitakeppnina. 

En Njarðvíkingar tóku deildarmeistaratitilinn og eru með stóra skotmarkið á bakinu inn í úrslitakeppnina og mæta KR í fyrstu umferð. Skemmst frá því að segja eiga Njarðvíkingar svo sannarlega harma að hefna gegn vesturbæjarliðinu þar sem þeir niðurlægðu þá undir lok deildarkeppninar í Ljónagryfjunni.  Keflvíkingar sem lengst yfir mótið voru við toppinn hrundu með þessu tapi niður í 5. sæti deildarinnar og þurfa að etja kappin gegn funheitu liði Tindastóls í fyrstu umferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert