Öruggur sigur Njarðvíkur sem leiðir nú einvígið

Aliyah Mazyck er lykilmaður í liði Fjölnis.
Aliyah Mazyck er lykilmaður í liði Fjölnis. mbl.is/Árni Sæberg

Njarðvík vann mjög þægilegan sigur, 72:51, á Fjölni í þriðja leik undanúrslita Íslandsmótsins í körfubolta kvenna í kvöld. Leikið var í Dalhúsum í Grafarvogi en þetta var þriðji leikur liðanna í einvíginu.

Fyrir höfðu liðin unnið sinn leikinn hvort og Njarðvík hefur nú náð 2:1 forystu gegn deildarmeisturunum.

Fyrsti leikhlutinn var algjör eign gestanna úr Njarðvík sem gjörsamlega yfirspiluðu Fjölnis-liðið. Sóknarleikur Njarðvíkur gekk eins og vel smurð vél og setti liðið niður hvert skotið á fætur öðru á meðan Fjölnir var í miklum vandræðum. Njarðvík náði upp forskoti og að loknum leikhlutanum var staðan 29:13.

Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Sóknarleikur Fjölnir var algjörlega bitlaus á meðan Njarðvíkingar voru að spila mjög vel. Að loknum fyrri hálfleik voru fjórir leikmenn Njarðvíkur komnir í tveggja stafa tölu í stigaskori og staðan í leiknum orðin 49:25.

Njarðvík hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og spilaði af mikilli skynsemi. Fjölnis-liðið var aldrei líklegt til að ná neinni endurkomu og hélst munurinn í kringum 20 stig út leikhlutann. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 62:39.

Fjölnir beit aðeins frá sér í fjórða leikhluta og náði að minnka forskot Njarðvíkur aðeins. Liðið komst þó aldrei nógu nálægt og var sigur Njarðvíkur í raun aldrei í hættu.

Staðan í einvíginu því orðin 2:1 Njarðvíkingum í vil sem geta klárað dæmið á heimavelli í næsta leik sem fer fram á miðvikudaginn.

Stigahæsti leikmaður vallarins kom úr liði Fjölnis en Aliyah Mazyck skoraði 23 stig. Iva Bosnjak var næst stigahæst í liði Fjölnis en hún skoraði 8 stig.

Hjá Njarðvík var Aliyah Collier stigahæst með 19 stig og 17 fráköst. Lavína Joao Gomes De Silva var næst stigahæst með 18 stig.

Lið gegn eins manns her

Þetta Fjölnis-lið lendir í vandræðum þegar aðrir leikmenn en Aliyah Mazyck ná sér ekki á strik eins og gerðist í dag. Sanja Orozovic skoraði bara eitt stig og Dagný Lísa Davíðsdóttir átta sem dæmi. Það er ekki vænlegt til árangurs þegar liðið fær almennilegt framlag frá einungis einum leikmanni í liðinu.

Njarðvík glímdi ekki við sama vandamál og Fjölnir í kvöld. Fjórir leikmenn skoruðu 10 stig eða meira og gekk sóknarleikurinn eins og vel smurð vél á löngum köflum. Ljóst er að Fjölnir þarf að eiga tvo frábæra leiki ætli þær sér ekki snemma í sumarfrí.Fjölnir 51:72 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is