Sópurinn á lofti í Njarðvík og KR komið í sumarfrí

Njarðvík sendi KR í sumarfrí í kvöld.
Njarðvík sendi KR í sumarfrí í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Njarðvík gjörsigraði KR 91:63 í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik suður með sjó í kvöld. Njarðvík sópaði einvíginu, vann það 3:0, og er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum á meðan KR er búið að leika sinn síðasta leik á tímabilinu.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu snemma 2:7 forystu. Njarðvíkingar voru þó ekki lengi að jafna metin í 7:7.

Heimamenn náðu forystunni, 12:10, og virtist stefna í æsispennandi fyrsta leikhluta þegar KR jafnaði í 12:12 og 14:14.

Annað kom þó á daginn þar sem KR hætti einfaldlega að skora, gerði það ekki síðustu fjórar mínútur leikhlutans, á meðan Njarðvík jók forskot sitt jafnt og þétt og var komið 11 stigum yfir, 25:14, að loknum fyrsta leikhluta.

KR-ingar hófu þó annan leikhluta með besta móti og minnkuðu muninn fljótt niður í 25:19. Njarðvík skoraði loks sín fyrstu stig að þremur mínútum liðnum í leikhlutanum og komst þá almennilega í gang á ný.

Juku Njarðvíkingar forskotið í 13 stig, 32:19, og mest varð það 15 stig, 40:25, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.

KR lauk fyrri hálfleiknum þó nokkuð vel og náðu að minnka muninn niður í sjö stig, 43:36, áður en Njarðvík skoraði síðustu tvö stig hans og leiddu þannig með níu stigum, 45:36, í leikhléi.

KR hóf síðari hálfleikinn á því að setja niður þrist og minnkaði þannig muninn niður í sex stig, 45:39.

Nær komust gestirnir hins vegar ekki þar sem Njarðvík svaraði með því að skora næstu níu stig og komst þannig í 15 stiga forystu, 54:39.

Í þriðja leikhluta komst Njarðvík mest 18 stigum yfir, 61:43, og leiddi með 17 stigum, 66:49, fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Reyndist hann formsatriði fyrir heimamenn sem juku forskot sitt jafnt og þétt og unnu að lokum afskaplega öruggan 28 stiga sigur.

Deildarmeistarar Njarðvíkur unnu því einvígið með glæsibrag, 3:0. Í undanúrslitunum mætir liðið Grindavík ef Grindavík tekst að vinna ríkjandi Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn.

Vinni Þór það einvígi mun Njarðvík hins vegar mæta sigurliðinu úr einvígi Tindastóls og Keflavíkur.

Grikkinn Fotios Lampropoulos var stigahæstur í leiknum með 20 stig fyrir Njarðvík og tók einnig 12 fráköst. Liðsfélagi hans Dedrick Basile lék einnig vel og skoraði 18 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Þorvaldur Orri Árnason var stigahæstur í liði KR með 14 stig og sex fráköst. Skammt undan var Svíinn Carl Lindblom með 13 stig auk þess sem hann tók átta fráköst.

Gæðamunurinn kom í ljós

Fyrstu tveir leikir einvígisins voru nokkuð jafnir; þeim fyrsta lauk með níu stiga sigri og öðrum leiknum í Vesturbænum lauk með sjö stiga sigri.

Í leik kvöldsins varð þó fljótlega ljóst að ekkert slíkt yrði uppi á teningnum.

Njarðvík sýndi glögglega hversu mikill gæðamunur er á liðunum tveimur og lék á als oddi hvar sem fæti var drepið niður.

Varnarleikurinn var líkt og svo oft áður á tímabilinu til mikillar fyrirmyndar hjá Njarðvíkingum og í sóknarleiknum skiptu leikmenn stigunum bróðurlega á milli sín þar sem fjölbreyttar körfur litu dagsins ljós.

Á meðan hittu KR-ingar afleitlega fyrir utan þriggja stiga línuna og eftir því sem leið á leikinn fóru þeir lengra og lengra inn í skelina sína. Njarðvíkingar nýttu sér það, gengu á lagið og unnu því þetta sannfærandi sigur.

Gangur leiksins: 5:7, 12:12, 19:14, 25:14, 25:19, 32:19, 40:25, 45:36, 47:39, 56:41, 61:43, 66:49, 75:53, 80:56, 84:62, 91:63.

Njarðvík: Fotios Lampropoulos 20/12 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 19, Dedrick Deon Basile 18/6 fráköst/7 stoðsendingar, Haukur Helgi Pálsson 12, Nicolas Richotti 12/6 fráköst/7 stoðsendingar, Mario Matasovic 4/8 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 3, Logi Gunnarsson 3.

Fráköst: 37 í vörn, 2 í sókn.

KR: Þorvaldur Orri Árnason 14/6 fráköst, Carl Allan Lindbom 13/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 9, Veigar Áki Hlynsson 7, Dani Koljanin 7/7 fráköst, Björn Kristjánsson 6, Adama Kasper Darbo 5/5 fráköst, Hallgrímur Árni Þrastarson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Aðalsteinn Hjartarson, Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson.

Njarðvík 91:63 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert