Miklar sviptingar í fyrsta leik úrslitanna

Njarðvíkingurinn Aliyah Collier og Haukakonan Haiden Palmer í baráttu á …
Njarðvíkingurinn Aliyah Collier og Haukakonan Haiden Palmer í baráttu á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aliyah Collier átti stórleik fyrir Njarðvík þegar liðið tók forystuna gegn Haukum í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.

Leiknum lauk með 70:59-sigri Njarðvíkur en Collier skoraði 31 stig, tók 20 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur á meðan það var mikið hik í sóknarleik Hauka. Njarðvík leiddi með þremur stigum að fyrsta leikhluta loknum, 17:14.

Liðin skiptust á að skora í upphafi annars leikhluta en Diane Diéné kom Njarðvík sex stigum yfir með fallegri þriggja stiga körfu þegar annar leikhluta var rúmlega hálfnaður.

Þá tóku Hafnfirðingar leikhlé sem margborgaði sig því liðið náði 7:0 áhlaupi og komst 25:24 yfir. Njarðvíkngar fengu síðustu sókn síðari hálfleiks en tókst ekki að ná skoti á körfuna og Haukar leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 28:26.

Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfeikinn af krafti og voru fljótar að snúa leiknum sér í vil. Aliyah Collier kom þeim fjórum stigum yfir, 31:27 en þá vöknuðu Haukarnir.

Lovísa Henningsdóttir setti niður tvær þriggja stiga körfur fyrir Hauka með stuttu millibili og Haiden Palmer kum þeim sex stigum yfir 39:33 þegar nokkrar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Njarðvíkingum tókst að laga stöðuna og Haukar leiddu 47:44 að þriðja leikhluta loknum.

Líkt og allan leikinn skiptust liðin á að skora í upphafi fjórða leikhluta en Lára Ösp Ásgeirsdóttir kom Njarðvík yfir í fyrsta skiptið í langan tíma, 52:51, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

Aliyah Collier kom Njarðvík svo sex stigum yfir, 60:54, þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka. Haukum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil eftir það og Njarðvík fagnaði sigri.

Lavína Goms skoraði 15 stig fyrir Njarðvík og tók fimm fráköst og Diane Diéné skoraði 9 stig og tók fjögur fráköst.

Lovísa Björt Henningsdóttir var stigahæst í liði Hauka með 13 stig og fimm fráköst og Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 12 stig og tók sjö fráköst.

Liðin mætast næst föstudaginn 22. apríl í Ljónagryfjunni í Njarðvík og er Njarðvík komið með 1:0 forystu í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Gangur leiksins:: 4:5, 8:9, 14:12, 14:17, 16:21, 23:24, 27:26, 28:26, 29:31, 31:33, 44:38, 47:44, 51:47, 51:52, 54:60, 59:70.

Haukar: Lovísa Björt Henningsdóttir 13/5 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 12/7 fráköst, Helena Sverrisdóttir 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Haiden Denise Palmer 10/7 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 6, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 5/4 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 2.

Fráköst: 18 í vörn, 16 í sókn.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 31/20 fráköst/3 varin skot, Lavína Joao Gomes De Silva 15/5 fráköst, Diane Diéné Oumou 9/4 fráköst/3 varin skot, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Helena Rafnsdóttir 6, Vilborg Jonsdottir 2/5 fráköst/5 stoðsendingar.

Fráköst: 26 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Jakob Árni Ísleifsson.

Áhorfendur: 423

Haukar 59:70 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is