Njarðvík Íslandsmeistari í annað sinn

Njarðvíkingar fagna Íslandsmeistaratitlinum í kvöld.
Njarðvíkingar fagna Íslandsmeistaratitlinum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Njarðvík varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í körfuknattleik í annað sinn í sögu félagsins en liðið vann einnig fyrir áratug síðan.

Njarðvík vann Hauka í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld 51:65.  Haukar urðu í vetur bikarmeistarar og áttu því möguleika á að vinna tvöfalt.

Heimavellirnir hafa oft verið mikilvægir frá því úrslitakeppnirnar hófust í íslensku vetraríþróttunum. Þótt ótrúlegt megi virðast þá unnust allir fimm leikirnir í úrslitarimmunni á útivelli.

Þótt oddaleik hafi þurft til að knýja fram úrslit í þessari rimmu þá voru leikirnir hver fyrir sig ekkert sérstaklega jafnir. Ekki varð breyting á því í kvöld því Njarðvík náði strax góðu forskoti í leiknum og lét það ekki af hendi. Línan var lögð í fyrsta leikhluta þegar Haukar skoruðu aðeins fimm stig og Njarðvík var yfir 16:5 eftir fyrsta leikhluta.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var staðan 41:19 fyrir Njarðvík og ljóst hvert stefndi. Um tíma í örðum leikhluta kom augnablik þar sem Haukar virtust aðeins vera að ná sér á strik. Liðið gat þá komið forskotinu í eins stafs tölu en það gekk ekki og Njarðvík stakk af. 

Í fjórða leikhluta tóku Haukar smá rispu og minnkuðu muninn niður í tólf stig þegar enn voru um sex mínútur eftir. Þeim tókst ekki að minnka muninn frekar og því varð aldrei veruleg spenna í leiknum í síðari hálfleik.

Lið Njarðvíkur var töluvert betra í kvöld og átti sigurinn í oddaleiknum skilinn. Haukar hittu úr 17 af 74 skotum sínum í leiknum og segir það nokkuð um hvernig leikmenn liðsins voru upplagðir í þetta skiptið en einnig nokkuð um vörnina hjá Njarðvík. 

Aliyah A'taeya Collier var stigahæst hjá Njarðvík með 24 stig en Haiden Palmer með 11 stig hjá Haukum.

Umgjörð leiksins var til fyrirmyndar og áhorfendur fylltu Ólafssal eða svo gott sem en 1.189 mættu á leikinn. Var orðið fullt nokkuð áður en leikurinn hófst og mikil læti. Stuðningsmenn Hauka urðu heldur daufari þegar leið á en stuðningsmenn Njarðvíkur héldu uppi stuðinu og bjuggu til skemmtilega stemningu fyrir sínar konur þegar þeir veittu Íslandsbikarnum viðtöku. 

Aliyah A'taeya Collier var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar af KKÍ. 

Haukar 51:65 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is