Sú besta íhugar að vera áfram í Njarðvík

Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ og fyrverandi Íslandsmeistari og Collier eftir …
Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ og fyrverandi Íslandsmeistari og Collier eftir að tilkynnt var um valið á besta leikmanni úrslitakeppninnar. mbl.is/Óttar Geirsson

Aliyah Collier var í kvöld valin besti leikmaður úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik af Körfuknattleikssambandinu. 

„Þetta er mikill heiður en mér hefði ekki hlotnast hann ef ekki væri fyrir liðsfélagana. Þær studdu vel við bakið á mér á tímabilinu og hvöttu mig áfram bæði innan vallar sem utan,“ sagði Collier þegar mbl.is tók hana tali á Ásvöllum kvöld. Þar skoraði hún 24 stig og tók 25 fráköst sem er nánast með ólíkindum. 

Collier er 25 ára gömul og átti afbragðs leiki fyrir Njarðvík en Collier kemur frá Georgíuríki í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið frá Augusta sem er svo gott sem heilagur staður í hugum kylfinga því þar er hinn glæsilegi Augusta National völlur. Verður hún áfram í Njarðvík á næsta tímabili?

„Það er mér ofarlega í huga sem stendur. Ég velti því sannarlega vel fyrir mér en við sjáum hvað gerist.“

Aliyah Collier var illviðráðanleg í úrslitakeppninni.
Aliyah Collier var illviðráðanleg í úrslitakeppninni. mbl.is/Árni Sæberg

 

Hún lék áður sem atvinnumaður í Portúgal og Finnlandi. Hvernig er sigurinn á Íslandsmótinu í samanburði við annað sem hún hefur afrekað? 

„Þetta er langmesta afrekið til þess á ferlinum. Ég hef komist í úrslitakeppni áður en ekki orðið landsmeistari. Þetta skiptir mig því miklu máli. Það er mjög spennandi að upplifa þetta og ég reyni að drekka í mig andrúmsloftið,“ sagði Collier í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert