Rosaleg stemning í Síkinu er Tindastóll jafnaði einvígið

Javon Bess úr Tindastóli sækir á Pablo Bertone úr Val …
Javon Bess úr Tindastóli sækir á Pablo Bertone úr Val í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll vann glæsilegan 91:75-stórsigur á Val í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í Síkinu í kvöld. Valur vann fyrsta leik liðanna og er staðan í einvíginu því 1:1

Stemningin í Síkinu var hafin löngu fyrir leik og eiga Skagfirðingar og aðrir sem mættu þvílíkt hrós skilið fyrir stuðninginn sem þeir sýndu í kvöld. Spilamennska Tindastóls-liðsins gerði svo akkúrat ekki neitt til að minnka stemninguna eftir að leikurinn hófst en gestirnir áttu engin svör bæði varnar- og sóknarlega. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 53:34 heimamönnum í vil, ekkert minna en verðskuldað. 

Í þriðja leikhluta var það sama uppi á teningnum og í fyrri hálfleik. Tindastóll lék á als oddi á meðan Valur var í miklum vandræðum. Tindastóll náði mest í kringum 20 stiga mun en Valsmenn skoruðu síðustu sjö stig leikhlutans og minnkuðu muninn þar með í 69:53. 

Á fyrstu mínútu fjórða leikhluta minnkaðu Valur svo muninn niður í 10 stig með sitt hvorri þriggja stiga körfunni frá Jacob Calloway og Pablo Bertone. Þá tóku þó Skagfirðingar við sér á nýjan leik sem varð til þess að Valsmenn komust ekki nær. Leiknum lauk því með sannfærandi sigri Tindastóls.

Tindastóll 91:75 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert