„Elti það sem maginn sagði mér“

Breki Gylfason og Hilmar Smári Henningsson við undirskriftina í dag.
Breki Gylfason og Hilmar Smári Henningsson við undirskriftina í dag. mbl.is/Gunnar Egill

Körfuknattleiksmaðurinn Breki Gylfason samdi í dag við Hauka í þriðja skipti á ferli sínum eftir eins árs dvöl hjá ÍR.

„Tilfinningin er alltaf góð. Mér líður vel hérna og líður nánast eins og þetta sé heimili mitt,“ sagði Breki í samtali við mbl.is eftir að Haukar tilkynntu hann og Hilmar Smára Henningsson á blaðamannafundi á Ásvöllum í dag.

„Mér finnst þetta rosalega spennandi og það er mikill metnaður hjá klúbbnum. Það er það sem höfðar strax til mín, metnaður hjá stjórninni, metnaður hjá þjálfaranum,“ bætti hann við.

Þrátt fyrir að vera nýliðar í deildinni eftir eins árs dvöl í 1. deildinni, sem Haukar sigruðu, sagði Breki að stefnan væri tafarlaust sett á að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Að sjálfsögðu. Við erum náttúrlega í þessu til þess að keppa um titla og erum að stefna þangað, í úrslitakeppnina.“

Spurður hvort það hafi komið til greina að halda kyrru fyrir hjá ÍR sagði Breki að lokum:

„Jú jú, ég talaði mikið við þá en ég elti bara það sem maginn minn sagði mér og ákvað að koma í Hauka aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert