Memphis gjörsigraði Golden State – meistararnir leiða gegn Boston

Jaylen Brown og Giannis Antetokounmpo eigast við í nótt.
Jaylen Brown og Giannis Antetokounmpo eigast við í nótt. AFP/Maddie Malhotra

Memphis Grizzlies hélt sér á lífi í undanúrslitaeinvígi sínu í vesturdeild NBA-deildarinnar í körfubolta með mögnuðum 134:95-sigri í nótt. Á sama tíma unnu ríkjandi NBA-meistarar Milwaukee Bucks nauman 110:107-sigur á Boston Celtics.

Memphis lét fjarveru ungstirnisins Ja Morant ekkert á sig fá og fékk frábært framlag frá fjölda leikmanna. Tyus Jones, Desmond Bane og Jaren Jackson Jr. skoruðu allir 21 stig og sá síðastnefndi bætti við átta fráköstum.

Alls skoraði varamannabekkurinn svo 55 stig og því um fyrirtaks liðsframmistöðu að ræða.

Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 19 stig.

Staðan er nú 3:2 fyrir Golden State í einvíginu. Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvígi vesturdeildarinnar.

Giannis Antetokounmpo átti sannkallaðan stórleik fyrir Milwaukee er hann skoraði 40 stig og tók 11 fráköst í sigrinum gegn Boston í nótt.

Jrue Holiday bætti við 24 stigum fyrir meistarana.

Jayson Tatum og Jaylen Brown voru stigahæstir Boston-manna sem fyrr. Tatum skoraði 34 stig og Brown skoraði 26 stig auk þess að taka átta fráköst.

Milwaukee leiðir nú 3:2 í einvígi liðanna í austurdeildinni.

mbl.is