Curry og Thompson skutu Golden State í úrslit Vesturdeildar

Curry stillir upp í eitt af fjölmörgum þriggja stiga skotum …
Curry stillir upp í eitt af fjölmörgum þriggja stiga skotum sínum í gær. AFP/Ezra Shaw

Golden State Warriors tryggði sig í nótt í úrslit Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta vestanhafs. Liðið vann 110:96-sigur á Memphis Grizzlies í sjötta leik liðanna og vann því einvígið 4:2.

Golden State vann fyrsta leikhluta með fjögurra stiga mun en eftir næstu tvo hafði Memphis minnkað muninn niður í eitt stig. Í fjórða leikhluta virtist Golden State þó setja í annan gír og vann að lokum nokkuð sannfærandi sigur.

Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 30 stig og Steph Curry kom næstur með 29. Saman settu þeir niður 14 þriggja stiga skot í leiknum. Andrew Wiggins skoraði 18 stig og tók 11 fráköst, Draymond Green skoraði 14 stig og tók 15 fráköst og Kevon Looney tók heil 22 fráköst, þar af 11 sóknarfráköst.

Hjá Memphis var Dillon Brooks stigahæstur með 30 stig. Desmond Bane kom næstur með 25 og Jaren Jackson Jr. 12.

Golden State er því eins og áður sagði komið í úrslit Vesturdeildar. Þar mun liðið annað hvort mæta Dallas Mavericks eða Phoenix Suns en einvígi þeirra er komið alla leið í oddaleik.

mbl.is