Boston vann oddaleik við meistarana

Jayson Tatum fagnar í kvöld.
Jayson Tatum fagnar í kvöld. AFP/Adam Glanzman

Boston Celtics tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum um NBA-meistaratitilinn í körfubolta í Bandaríkjunum með 109:81-stórsigri á ríkjandi meisturum Milwaukee Bucks í oddaleik á heimavelli.

Milwaukee byrjaði betur og var með forystuna stærstan hluta fyrri hálfleiks. Góður kafli undir lok hálfleiksins hjá Boston sá hinsvegar til þess að Boston var með 48:43-forskot í hálfleik.

Boston-liðið var svo töluvert betra í seinni hálfleik og vann að lokum afar öruggan 28 stiga sigur.

Grant Williams skoraði 27 stig fyrir Boston og Jayson Tatum gerði 23 stig. Giannis Antetokounmpo skoraði 20 stig, tók 20 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Milwaukee og Jrue Holiday skoraði 21 stig.

Boston mætir Miami í úrslitum Austurdeildarinnar á meðan Golden State Warriors mætir annaðhvort Dallas Mavericks eða Phoenix Suns í úrslitum Vesturdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert