Síkið gefur Tindastóli ofboðslega mikið

Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij fagna sigrinum á Hlíðarenda á …
Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij fagna sigrinum á Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pavel Ermolinskij, leikmaður Vals, sagði í samtali við blaðamann mbl.is að Valsmenn séu tilbúnir í fjórða leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í körfubolta karla gegn Tindastóli.

Leikurinn fer fram í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld klukkan 20.15 en stemningin þar hefur verið ógnvænleg í úrslitakeppninni. Með sigri verða Valsmenn Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 39 ára en ef Tindastóll vinnur verður oddaleikur liðanna um titilinn á Hlíðarenda á miðvikudagskvöldið.

Segja má að stemningin hafi náð ákveðnu hámarki í öðrum leik liðanna þegar Tindastóll vann sannfærandi sigur á Val. Pavel segir það þó hafa mun meiri áhrif á heimamenn í Tindastóli en aðkomuliðin.

„Ég held að misskilningurinn sé sá að Síkið sé endilega að gera andstæðingnum erfiðara fyrir, flestir hafa spilað í alls kyns aðstæðum áður. Ég held að þetta sé frekar það að Síkið gefi Tindastóls-liðinu ofboðslega mikið. Þetta er rosaleg vítamínssprauta fyrir þá frekar en að þetta dragi úr andstæðingnum. Þeim líður vel þarna, eðlilega, með svona stuðning og þeir fá aukinn kraft. Það er kannski helst þess vegna sem þetta verður vandamál fyrir önnur lið, í gegnum þá en ekki beint frá stemningunni eða stúkunni. “

Í þriðja leik liðanna lenti Valur mest 21 stigi undir en kom til baka á ótrúlegan hátt og vann. En hvað þurfa lið að gera til að koma slíkri endurkomu af stað?

„Þegar þú ert 20 stigum undir ertu alveg meðvitaður um hvað er að. Ég segi ekki að þú hafir engu að tapa en þú kemur allavega inn með ákveðið kæruleysi. Þú veist að þú þarft að gera þetta áfram á ákveðinni vinnusemi og hörku. Svo breytist þetta stundum þegar þú nærð að minnka muninn í 10 stig. Þá ertu kominn það nálægt að kæruleysið er farið og þú ferð að hugsa alls konar. Strákarnir gerðu mjög vel í gær með að gera það ekki. Það var kannski bara gott að við höfðum ekki mikinn tíma. Við vorum að jafna og komast yfir á síðustu mínútunum svo það var enginn tími til að taka fótinn af bensíngjöfinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert