„Svona viljum við hafa körfuboltann“

Pétur Rúnar Birgisson og Baldur Þór Ragnarsson fallast í faðma …
Pétur Rúnar Birgisson og Baldur Þór Ragnarsson fallast í faðma í leikslok. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls í Subway-deildinni í körfubolta, gat brosað breitt eftir ævintýralegan sigur Stólanna í kvöld. Tindastóll vann Val 97:95 með körfu á lokaandartökum leiksins eftir að hafa verið fimm stigum undir þegar tíu sekúndur lifðu. Hann, eins og svo margir aðrir, var hálf orðlaus.

Baldur. Það þarf sterkar taugar til að stjórna þessu liði þínu. Það er boðið upp á ótrúlega spennu í hverjum einasta leik. 

„Þetta var rosalegt og svona viljum við hafa körfuboltann.“ 

Það voru miklar hæðir og lægðir hjá liðunum. Þið með leikinn í lok venjulegs leikhluta en missið hann í framlengingu og Valsmenn tapa svo leiknum í framlengingu eftir að vera komnir með níu fingur á Íslandsbikarinn.

„Þetta var ótrúlegt og þetta er það sem við elskum við úrslitakeppnina. Það gerast ótrúlegir hlutir og þess vegna erum við í þessari stemningu alla daga.“ 

Snýst um að halda áfram

Það er farið að kvarnast úr hópnum hjá þér. Zoran er greinilega ekki alveg heill og Helgi Rafn hefur verið í veseni. Það reynir meira á mannskapinn. 

„Það verður bara að koma maður í manns stað og nú er bara einn leikur eftir. Menn setja bara allt í þetta og við sjáum hverju það skilar.“ 

En þín líðan í framlengingunni. Maður sá alveg á áhorfendum að þetta var erfitt fyrir þá, ekki síst þegar þið voruð búnir að klúðra fjórum vítum í röð. Þeir hættu samt aldrei og ...

„Já já, bara, ég veit ekki. Þetta snýst um að halda áfram, ekki fara fram úr sér. Við tökum alltaf einn leik í einu. Það er bara stöffið, aldrei að gefast upp. Það er það sem við stöndum fyrir“ sagði Baldur, enn hálf orðlaus áður en hann var gripinn í næsta viðtal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert