Doncic og Dallas sendu Phoenix í sumarfrí

Luka Doncic brosmildur ásamt Dorian Finney-Smith í leiknum í Phoenix …
Luka Doncic brosmildur ásamt Dorian Finney-Smith í leiknum í Phoenix í nótt. AFP/Christian Petersen

Dallas Mavericks gerði sér lítið fyrir í nótt og vann stórsigur á útivelli á hinu öfluga liði Phoenix Suns í oddaleik liðanna um sæti í úrslitum Vesturdeildar NBA í körfubolta, 123:90.

Það verða því Dallas og Golden State sem leika til úrslita í Vesturdeildinni en í Austurdeildinni verða það Miami Heat og Boston Celtics sem eigast við.

Fyrstu sex leikir Dallas og Phoenix enduðu með sigri heimaliðsins en Dallas rauf þá hefð heldur betur í nótt og vann einvígið 4:3.

Luka Doncic og félagar í Dallas gerðu nánast út um leikinn í öðrum leikhluta þegar þeir skoruðu þrjátíu stig gegn aðeins tíu og voru með þrjátíu stiga forystu í hálfleik, 57:27. Ótrúlegar tölur. Bilið breikkaði bara í þriðja leikhluta þegar staðan var orðin 92:50 en heimamenn í Phoenix klóruðu aðeins í bakkann á lokasprettinum.

Doncic var sem fyrr aðalmaðurinn hjá Dallas með 35 stig 10 fráköst og Spencer Dinwiddie kom af bekknum og skoraði 30 stig.

Hjá Phoenix, sem þótti lengst af líklegt til að fara alla leið og verða meistari, skoraði enginn meira en 12 stig þar sem Cameron Johnson var hæstur. Devin Booker skoraði 11 og Chris Paul 10.

Fyrsti úrslitaleikur Dallas og Golden State í Vesturdeildinni fer fram aðfaranótt fimmtudags.

mbl.is