Fögnum því að það verði annar leikur í þessu einvígi

Kári Jónsson, númer 10, fylgist með Sigurði Gunnari Þorsteinssyni ásamt …
Kári Jónsson, númer 10, fylgist með Sigurði Gunnari Þorsteinssyni ásamt þremur samherjum sínum í leiknum á Sauðárkróki. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Kári Jónsson er á efa einn allra besti og skemmtilegasti körfuboltamaður sem Ísland hefur alið. Hafnfirðingurinn er nú í aðalhlutverki í liði Vals sem er að slást við Tindastól um Íslandsmeistaratitilinn.

Kári var frábær í gærkvöld þegar Valur tapaði í framlengdum leik á Sauðárkróki þar sem sorg og gleði sveiflaðist á milli liðanna margsinnis. 

Kári var vissulega vonsvikinn eftir leik en kom í skemmtilegt viðtal. 

Hvernig líður þér eftir þennan endi? Þið voruð grátlega nærri því að klára einvígið. 

„Bæði lið voru að setja niður fullt af mögnuðum skotum í rauninni. Það var endalaust af stórum atriðum. Þeir gerðu einu fleira en við og uppskáru sigur. Þetta var frábær körfuboltaleikur í kvöld sem var mikil skemmtun. Við fögnum því að það verði annar leikur í þessu einvígi. Við fáum einn leik í viðbót.“ 

Hvernig er að spila í þessari stemningu? Það er hreinlega allt brjálað í húsunum. 

„Þetta er bara magnað. Þetta er eitthvað sem alla dreymir um og þetta andrúmsloft er ógeðslega skemmtilegt. Eftir allt erfiðið sem menn hafa lagt á sig allan veturinn þá er þetta mjög gaman. Stuðningur hjá báðum liðum er magnaður og allt utanumhald líka. Bæði lið eiga virkilegt hrós skilið.“ 

Þú varst á vítalínunni undir lok framlengingarinnar. Hvernig er það að standa þarna og horfa á körfuna og taka vítaskot við þessar aðstæður? Er þetta kannski bara eins og hver önnur víti? 

„Auðvitað eru víti ekki alltaf bara víti sko. Maður reynir bara að koma sér í rétt ástand. Það ert bara þú og karfan. Það þarf að blokka allt annað út og halda sinni rútínu. Maður þarf að setja þessi skot niður.“ 

Þá er bara úrslitaleikurinn eftir. Hann er á miðvikudag og dagsetningin eflaust stimpluð í huga allra Valsara, Skagfirðinga og unnenda körfuboltans. 

„Þetta verður bara líf og fjör. Vonandi fáum við bara framhald á þessum leik hérna í kvöld. Þetta verður frábær stemning og það er pottþétt að bæði lið munu gefa allt í leikinn. Svo sjáum við bara hver verður sigurvegari.“ 

Er þetta skemmtilegasta rimman sem þú hefur verið í? 

„Já ætli það ekki. Alla vega eina af þeim. Það er erfitt að segja núna. Þetta er allt svo ferskt. Leikirnir hafa allir getað dottið hvoru megin og allt hnífjafnt.“ 

Ég er svo með eina aukaspurningu í lokin. Nú ert þú venjulega í treyju númer 10. Í síðasta leik þá varstu númer 20. Hvað var það? 

Kári var fljótur að sjá spaugilegu hliðina á þessu. „Ég er bara að reyna að rugla andstæðingana. Þeir átta sig kannski ekki á að þetta er ég. Nei, nei. Tían í hvíta búningasettinu kom allt of stór og svo kom önnur sem var líka of stór. Það er betra að vera í treyju númer 20 sem passar heldur en að spila í einhverju tjaldi“ sagði þessi snillingur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert