Kokteill af tilfinningum

Kristófer Acox fagnar með stuðningsmönnum Vals.
Kristófer Acox fagnar með stuðningsmönnum Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður er fyrst og fremst spenntur að vera að fara að spila þennan leik. Það eru margir sem væru til í að vera í þessum sporum,“ sagði Kristófer Acox, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is í dag.

Kristófer er á leiðinni í oddaleik með Val gegn Tindastóli á heimavelli klukkan 20:15 í kvöld þar sem Íslandsmeistaratitill er í boði. „Maður á númer eitt, tvö og þrjú að njóta þess að vera í þessari stöðu og hafa gaman en maður er líka stressaður í bland við spennuna. Þetta er kokteill af tilfinningum, sagði landsliðsmaðurinn.

Úrslitaeinvígið hefur verið mögnuð skemmtun til þessa og varð uppselt í Origo-höllina klukkutíma eftir að miðasala hófst.

Kristófer Acox með boltann gegn Tindastóli.
Kristófer Acox með boltann gegn Tindastóli. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Maður hefur orðið var við áhugann bæði fyrir norðan og hér í bænum og maður sér að það er gjörsamlega stappað á hverjum einasta leik. Það verður gaman að mæta á gólfið í kvöld og sjá aftur stappaða höll. Það hefði verið hægt að selja mun fleiri miða,“ sagði Kristófer.

Aldrei áður unnið með Val

Hann varð í þrígang Íslandsmeistari með KR en Kristófer viðurkennir að tilfinningin sé öðruvísi í Valsliðinu, enda hefur Valur ekki fagnað Íslandsmeistaratitli í 39 ár.

„Þetta er svipuð tilfinning. Það er alltaf stress og spenna til staðar. Þú vinnur eða tapar í þessum eina leik. Það er aðeins öðruvísi núna að vera hjá öðru félagi. Ég hef aldrei áður unnið þetta með Val og Valur hefur ekki unnið titilinn í 39 ár og þess vegna er maður aðeins spenntari að vinna núna.“

Sveið mjög mikið fyrir norðan

Valsmenn voru hársbreidd frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í fjórða leik einvígisins á Sauðárkróki á sunnudag. Tindastóll tryggði sér hinsvegar tveggja stiga sigur eftir framlengdan leik og mikla dramatík í lokin.

„Hann sveið mjög mikið en við vorum líka heppnir að koma honum í framlengingu. Þetta jafnaðist aðeins út með þeirra skoti og stolna bolta í lokin. Þetta var jafn leikur allan tímann en þetta var mjög sárt því manni leið eins og maður væri kominn með titilinn en svo var honum kippt frá manni. Þetta er partur af þessu og við vissum að við fengjum annað tækifæri á okkar heimavelli.

Kristófer Acox og Kári Jónsson hafa náð mjög vel saman …
Kristófer Acox og Kári Jónsson hafa náð mjög vel saman með Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður leyfði sér að vera sár eftir leikinn fyrir norðan en það er nýr dagur í dag og nýtt tækifæri og maður verður að vera klár til að berjast í 40 mínútur. Vonandi endar maður með bikar í höndunum,“ sagði Kristófer um fjórða leikinn.

Þrír af fjórum leikjum einvígisins hafa verið hnífjafnir og á Kristófer von á áframhaldandi spennu.

„Ég held þetta verði alveg eins og þetta er búið að vera að mestu leyti. Við viljum vera í bílstjórasætinu og eftir seinni hálfleikinn í leik þrjú finnst mér við hafa verið að spila betri bolta en þetta mun ráðast á því hvort liðið er sterkara andlega. Bæði lið eru orðin mjög þreytt. Það er mikið líkamlegt- og andlegt áreiti og nú kemur í ljós hvort liðið er sterkara,“ sagði Kristófer.

Kristófer Acox fagnar vel og innilega.
Kristófer Acox fagnar vel og innilega. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert