„Mig langar í þennan titil“

Sigtryggur Arnar Björnsson sækir að körfu Valsmanna í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson sækir að körfu Valsmanna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigtryggur Arnar Björnsson sagðist horfa til þriðja leiksins þegar hann gerði stuttlega upp úrslitarimmu Íslandsmótsins í körfuknattleik að oddaleiknum loknum á Hlíðarenda í kvöld. 

Í þriðja leiknum átti Tindastóll góða möguleika á að komast 2:1 yfir en liðið hafði þá fimmtán stiga forskot snemma í síðasta leikhlutanum. Val tókst engu að síður að vinna leikinn og komast 2:1 yfir. Valur varð Íslandsmeistari með sigri í oddaleiknum 73:60. 

„Í kvöld skipti miklu máli fyrir Val að Hjálmar [Stefánsson] átti stórleik. Ég verð að hrósa honum fyrir að stíga fram á ögurstundu. Valsmenn voru bara betri í þessum leik en þetta var bara einn leikur. Við hefðum þurft að ná sigri í þriðja leiknum hér í Valsheimilinu. Það kom svolítið í bakið á okkur í þessari seríu. Þegar uppi er staðið þá horfum við á þann leik sem leik sem við áttum að vinna. En það þarf einnig að koma fram að Valsmenn voru stórkostlegir í þessari rimmu og eiga þetta alveg skilið. Vel gert hjá þeim,“ sagði Sigtryggur Arnar og tekur undir að úrslitarimmann í heild sinni var alveg makalaus skemmtun. 

Stuðningsmenn Tindastóls létu ekki sitt eftir liggja í kvöld.
Stuðningsmenn Tindastóls létu ekki sitt eftir liggja í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tvö geggjuð lið, magnaðir stuðningsmenn og skemmtilega sería sem ég hef tekið þátt í. Ég hefði alls ekki viljað missa af þessu þótt ég hafi verið í tapliði. Þetta var sturlað og heiður að fá að upplifa þetta.“

Á Sigtryggur Arnar von á því að spila hérlendis á næsta tímabili? 

„Já mig langar í þennan titil,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is