Rússar dæmdir úr leik og Ísland nær HM

Ísland mætti Rússlandi á útivelli í nóvember en þau mætast …
Ísland mætti Rússlandi á útivelli í nóvember en þau mætast ekki á Íslandi. Ljósmynd/FIBA

Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, hefur ákveðið að vísa rússneskum landsliðum úr keppnum á vegum sambandsins. Íslenska karlalandsliðið er þar með öruggt um sæti í seinni umferð undankeppni HM 2023 en Ísland og Rússland voru saman í H-riðli.

Öll úrslit rússneska liðsins í riðlinum hafa verið gerð ógild, þar á meðal 89:65-heimasigurinn á Íslandi í nóvember á síðasta ári. Rússar höfðu unnið alla þrjá leiki sína til þessa.

Þrjú efstu lið riðilsins áttu að fara í seinni umferðina en með brotthvarfi Rússa fara öll þrjú liðin, sem eftir eru í H-riðlinum, áfram. Leika þau í riðli með þremur efstu liðum G-riðils. Þar berjast Georgía, Spánn, Úkraína og Norður-Makedónía um að fara áfram.

Fjögur af sex efstu liðunum sem leika í seinni umferðinni fara áfram á lokamót HM. Því á íslenska liðið fína möguleika á því að komast á heimsmeistaramót í fyrsta skipti.   

Ísland tekur árangurinn úr fyrri riðlinum með sér í seinni riðilinn og fer því annað hvort áfram með þrjá sigra og eitt tap eða tvo sigra og tvö töp. Ísland mætir Hollandi á heimavelli 1. júlí næstkomandi í lokaleik sínum í riðlinum.

mbl.is