Stuðningsmenn á Íslandi eru ótrúlegir

Jacob Calloway með boltann í gærkvöldi.
Jacob Calloway með boltann í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ótrúleg tilfinning. Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila í úrslitakeppni og það var mjög góð tilfinning í leikslok,“ sagði Bandaríkjamaðurinn Jacob Calloway í samtali við mbl.is skömmu eftir að hann varð Íslandsmeistari í körfubolta með Val.

Valur hafði betur gegn Tindastóli í fimm leikja seríu, 3:2, og tryggði liðið sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 39 ár með 73:60-sigri í kvöld. Serían var jöfn og æsispennandi.

„Þetta var andlega þreytandi. Þeir eru með mjög gott lið og þeir svöruðu öllu sem við reyndum og við svöruðum öllu sem þeir reyndu. Þrír leikir voru hnífjafnir. Að lokum var þetta vörnin. Við unnum alla leikina í þessari seríu með vörninni okkar. Hjálmar var svo sterkur í dag. Ég hef aldrei séð hann svona góðan. Það rann á hann eitthvað æði.“

Calloway hélt á kampavínsflösku á meðan á viðtalinu stóð og var tilbúinn til að fagna vel og innilega, enda stór áfangi. „Við verðum að fagna í kvöld. Til þess vinnum við titla,“ sagði hann brosandi.

Hann viðurkennir að serían hafi tekið mikið á, sérstaklega tap í framlengdum fjórða leik í Skagafirði þegar Valsmenn virtust vera með leikinn í höndum sér.

„Ég reyndi að hundsa það en ég var dauðþreyttur eftir leikina, sérstaklega eftir tapið í framlengingunni í síðasta leik. Sá leikur tók virkilega á andlega og líkamlega. Við gerðum vel í að skilja þann leik eftir og koma sterkir inn í þennan leik.“

Calloway hefur spilað í Sviss, Tékklandi og í háskólaboltanum í heimalandinu og hann hefur vart upplifað aðra eins stemningu. „Stuðningsmenn á Íslandi eru ótrúlegir. Ég hef spilað á móti Michigan í háskólaboltanum fyrir framan 15.000 manns og það var háværara í kvöld en var þá,“ sagði Calloway.  

Valur er Íslandsmeistari 2022.
Valur er Íslandsmeistari 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is